Munu ekki reyna á lögmæti sóttkvíarhótels

Guðni Bergsson, formaður KSí.
Guðni Bergsson, formaður KSí. mbl.is/Hari

„Maður hefur ekki alltaf verið sammála, hefur stundum viljað meira, en svona heilt yfir höfum við fengið skilning á okkar sjónarmiðum. En í þessu máli má segja að þá finnst manni að það verði auðvitað að gæta meðalhófs í setningu reglna og þessar reglur eru auðvitað mjög íþyngjandi eins og fram hefur komið,“ segir Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Við komuna til landsins í gær var U21-landslið karla og hópurinn sem fylgdi því út til Ungverjalands skikkaður til dvalar á sóttkvíarhóteli. A-landslið karla þarf þó ekki að dvelja þar yfir páskana, en liðið kom einnig til landsins í gær.

Segir Guðni að KSÍ hafi ekki hugsað sér að láta reyna á lögmæti þess að liðinu hafi verið gert að dvelja á hótelinu.

Alfons Sampsted, Ísak Óli Ólafsson, Róbert Orri Þorkelsson og Valgeir …
Alfons Sampsted, Ísak Óli Ólafsson, Róbert Orri Þorkelsson og Valgeir Lundal Friðriksson hita upp á æfingu U21 árs landsliðsins í október á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum auðvitað verið að vinna náið með sóttvarnayfirvöldum og almannavörnum undanfarið ár og fengið margar undanþágur frá ýmsum reglum til þess að geta haldið okkar starfsemi áfram og það hefur gengið ágætlega,“ segir Guðni og bætir við:

„Og við sóttum um undaþágu frá þessu af því að við töldum að við værum í mjög öruggu sóttvarnaumhverfi, í svokallaðri búbblu á þessu ferðalagi okkar síðustu 11 daga eða svo.“

Því var að sögn Guðna ansi hart að sjá eftir hluta hópsins fara í sóttvarnahús, en eins og áður segir þarf A-landsliðið ekki að dvelja þar yfir páskana, enda komu þeir annars staðar frá og fyrir vikið var mismunandi úrræðum beitt.

Guðni bendir á að báðir hóparnir hafi verið í eins öruggu umhverfi og mögulegt var, miðað við aðstæður, og öllum sóttvarnaúrræðum hafi verið fylgt til hins ýtrasta.

Færslan sett fram í gríni

Lesa mátti úr Twitter-færslu Jörundar Áka Sveinssonar, aðstoðarþjálfara U21-landsliðsins, að hann hafi verið ósáttur með það að þurfa að dvelja á sóttkvíarhótelinu.

Í samtali við mbl.is sagði Jörundur þó að um grín hefði verið að ræða. Þó hafi þeim þótt súrrealískt að þetta þyrfti að vera svona. Þeir hafi þá verið búnir að bóka dvöl á öðru hóteli.

„Auðvitað finnst manni þetta skrýtið að þetta skuli vera svona en svona eru bara reglunar og við fylgjum þeim og það er bara fínt ástand á okkur, hugsað vel um okkur og starfsfólkið hérna er yndislegt,“ segir Jörundur og bætir við:

„Við megum fara út í göngutúr, það er mikið atriði að við fáum að gera það.“

„Annars erum við bara í góðum málum og fylgjum öllum reglum,“ segir Jörundur að lokum.

Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, …
Jörundur Áki Sveinsson, aðstoðarþjálfari íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, þarf að verja páskunum á sóttkvíarhóteli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert