Seinagangur sóttvarnalæknis „óásættanlegur“

Sóttkvíarhótel við Þórunnartún.
Sóttkvíarhótel við Þórunnartún. mbl.is/Árni Sæberg

Full ástæða er að kanna það til hlítar hvort vistun fólks á sóttkvíarhóteli í Þórunnartúni standist stjórnarskrá, að mati Jóns Magnússonar, lögmanns eins þeirra sem höfðað hafa mál á hendur ríkinu vegna þessa.

Ljóst er nú að ólíklegt er að málið verði tekið fyrir af héraðsdómi í kvöld.

Jón segir að sóttvarnalækni beri, samkvæmt stjórnarskrá, að afgreiða mál þess sem er nauðungarvistaður eins fljótt og kostur er. Hann segir þetta ákvæði brotið með seinagangi sóttvarnalæknis, sem eigi að skila kröfugerð til dómstóla vegna þeirra mála sem höfðuð hafa verið á hendur ríkinu.

„Þetta er svipað og ef maður er nauðungarvistaður, af því þetta er nauðungarvistun, þá á innan 24 klukkustunda að leiða hann fyrir dómara. Hann á bara þann rétt að vera leiddur fyrir dómara og að það sé skorið úr um málið fyrir dómstólum. Þennan rétt eiga líka þeir sem eru nauðungarvistaðir með þessum hætti,“ segir Jón og vísar til 67. greinar stjórnarskrár Íslands:

  • Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.
  • Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt eða varðhald. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera.
  • Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.
  • Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

Sóttvarnalæknir ekki enn skilað kröfugerð

Sem stendur liggur ekki enn ljóst fyrir hvenær sú kröfugerð sóttvarnalæknis berst.

Lárentínus Kristjánsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, segir í skriflegu svari til mbl.is að kröfugerðin eigi að berast í kvöld, en Jón Magnússon segir að allt líti út fyrir að svo muni ekki verða.

Hvort sem verður, segir Lárentínus ólíklegt að fyrirtaka í málinu verði í kvöld. 

„Þetta hefði átt að vera tilbúið af hálfu sóttvarnalæknis strax um miðjan dag í gær,“ segir Jón.

„Þetta er nýtt úrræði og það lá alveg fyrir að margir þeirra sem eru nauðungarvistaðir með þessum hætti, myndu láta á það reyni hvort þetta stæðist lög.

Þess vegna bar sóttvarnalækni, eða hans embætti, að gera grein fyrir því að þessi kostur væri fyrir hendi. Það er bara eðlileg upplýsingaskylda stjórnvalds þegar svona um ræðir. Í öðru lagi að gera viðkomandi grein fyrir með hvaða hætti þetta gerðist og í þriðja lagi að taka niður þá sem vildu kæra í málinu og koma málinu fyrir dóm. Þetta hefði verið hinn eðlilegi framgangsmáti miðað við lög.“

Enginn á vakt í Landsrétti

Jón segir seinagang sóttvarnalæknis óásættanlegan. Ekki aðeins vegna þess að mögulega brjóti slíkt í bága við ákvæði stjórnarskrár, heldur einnig vegna þess að vistun fólks í sóttvarnahúsi klárast áður en Landsréttur gæti tekið áfrýjun í kærumálum fyrir.

Enginn dómari á vakt í Landsrétti yfir páskana, ólíkt Héraðsdómi Reykjavíkur, og því myndi fyrirtaka Landsréttar ekki hefjast fyrr en á þriðjudaginn næsta, að öllum líkindum. Það er einmitt sá dagur sem flestir á sóttkvíarhótelinu fá að fara heim til sín. 

mbl.is