Telja sóttvarnalög og stjórnarskrá brotna

Heimildir til skyldu til dvalar í farsóttarhúsi hefur verið umdeild …
Heimildir til skyldu til dvalar í farsóttarhúsi hefur verið umdeild undanfarið. Morgunblaðið/Sigurður Unnar Ragnarsson

Kona sem vistuð er í farsóttarhúsinu við Þórunnartún hefur lagt fram kæru vegna frelsissviptingarinnar. 

Konan sem er íslensk, af erlendum uppruna, ferðaðist utan til þess að vera viðstödd jarðarför móður sinnar. Hún á húsnæði hér á landi og telur sig hæfa til þess að sæta sóttkví þar. Konan vísaði fram neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins og reyndist einnig neikvæð fyrir Covid-19 í fyrri skimun við landamærin. 

„Þegar hún fer liggja þessar ákvarðanir ekki fyrir. Svo þarf auðvitað að koma til baka þar sem þetta er hennar heima. Þá verður hún fyrir þessari frelsissviptingu,“ segir Jón Magnússon, lögmaður konunnar, í samtali við mbl.is.

Bíða meðferðar fyrir dómi 

Kæra var send inn til vakthafandi dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og hefur hún síðan verið þar til meðferðar. Konan kom til landsins um miðnætti 1. apríl. 

„Málið hefði átt að fara í gang í gær og hefði átt að leiða til lykta í gær.“

„Við gerum kröfu um að málið verði tekið fyrir á þeim grunni sem sóttvarnalögin gera ráð fyrir, það er að segja að sóttvarnalæknir hafi forgöngu um málið og sé sóknaraðili. Þar sem ekki næst í viðkomandi höfum við farið fram á það að málið verði tekið fyrir á grundvelli 4. málsgreinar 67. greinar stjórnarskrár,“ segir Jón. 

Þar segir: Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

Þá segir Jón að tafir hafi orðið á málsmeðferð kærunnar, vegna þess að kveðið er á um í nýsamþykktum sóttvarnalögum að sóttvarnalæknir eða fulltrúi landlæknis skuli vera sóknaraðili, en hvorki hafi náðst í sóttvarnalækni né landlækni. Því sé brotið á stjórnarskrárvörðum rétti umbjóðanda hans ásamt því að sóttvarnalög séu brotin en í 15. grein þeirra segir m.a.:

 Nú óskar málsaðili eftir því að ákvörðun verði borin undir dóm og skal sóttvarnalæknir þá svo fljótt sem verða má setja fram skriflega kröfu um staðfestingu á gildi ákvörðunarinnar sem afhent skal dómstjóra héraðsdóms í þinghá þar sem málsaðili dvelst þegar ákvörðun er tekin.
Í slíku dómsmáli skal sóttvarnalæknir, eða eftir atvikum löglærður fulltrúi embættis landlæknis, talinn sóknaraðili málsins og sá er stjórnvaldsákvörðunin beinist gegn varnaraðili þess. [...]Dómari skal taka málið fyrir án tafar og hraða meðferð þess svo sem kostur er.

Segir stöðuna óviðunandi

„Þetta er gjörsamlega óviðunandi, að fólk sé frelsissvipt, fái engar upplýsingar um kærumöguleika, réttarstöðu sína eða með hvaða hætti það geti hnekkt þessari ákvörðun. Það er gjörsamlega með ólíkindum að svona skuli staðið að málum,“ segir Jón.

Hann bíður þess nú að kallað verði til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna kæru konunnar sem á meðan dvelur í farsóttarhúsinu.

Í 15. grein sóttvarnalaga segir einnig að sé einstaklingur sviptur frelsi sínu vegna stjórnvaldsákvörðunar og settur í einangrun eða sóttkví skuli gera honum tafarlaust grein fyrir ástæðum þess og veita honum leiðbeiningar um rétt hans til að bera ákvörðunina undir dóm.

mbl.is

Bloggað um fréttina