Varpar ljósi á hljóðið í eldgosinu

Jakob birti myndskeiðið í kvöld.
Jakob birti myndskeiðið í kvöld. Ljósmynd/Jakob Vegerfors

Myndskeið af eldgosinu í Geldingadölum, samsett úr mörgum upptökum Jakobs Vegerfors, hefur vakið athygli í kvöld eftir að hann birti það á YouTube.

Hann ákvað að skeyta ekki inn neinni tónlist á myndskeiðið heldur leyfa hljóðinu í kraumandi hrauninu að njóta sín. 

Í samtali við mbl.is segist Jakob hafa keypt nýjan hljóðnema í kjölfar fyrstu ferðar sinnar að gosinu. „Bara til að taka upp hljóðin,“ segir hann.

Náði langri upptöku um miðja nótt

Nær allt hljóðið í myndskeiðinu samsvarar samtímis myndefninu. Sums staðar þurfti hann þó að fylla inn í eyður með bútum úr langri upptöku sem hann náði um miðja nótt.

„Áður en þau byrjuðu að loka,“ tekur hann fram.

„Hljóðneminn er mjög næmur og mesti vandinn er að ná hljóðunum hreinum af vindi og öðru. Til að forðast raddir lét ég myndavélina stundum taka upp án hljóðnemans, tengdi hann þá frekar við símann til að fara nær, og samræmdi svo hljóðið eftir á.“

Hér að neðan má horfa og hlusta. Mælt er með að stækka myndgluggann, taka sér stutta hvíld frá dagsins amstri og horfa til enda.

mbl.is