Hreppslaug fær nýtt laugarhús og pottasvæði

„Við vonumst bara til þess að geta opnað fyrri part …
„Við vonumst bara til þess að geta opnað fyrri part sumars þó ekki sé komin dagsetning á það ennþá. Markmiðið er bara að skila af sér góðri aðstöðu til framtíðar,“ segir Kristján. Ljósmynd/Kristján Guðmundsson

Uppbygging er hafin við Hreppslaug í Skorradal og er formaður Ungmennafélagsins Íslendings, sem sér um rekstur laugarinnar, bjartsýnn á opnun nýrrar aðstöðu í sumar.

„Hreppslaug er búin að vera starfandi lengi og staðan var orðin þannig að húsið var í niðurníðslu og orðið barn síns tíma og ákveðin kvöð á félaginu,“ segir Kristján Guðmundsson í samtali við mbl.is, en Ungmennafélagið Íslendingur byggði laugina á árunum 1928-29 og var hún friðuð árið 2014 vegna sögulegs gildis hennar.

Kristján segir það svo hafa verið á síðasta ári sem Skorradalshreppur bauð félaginu að fjármagna uppbyggingu á nýju laugarhúsi og endurnýjun á pottasvæði. Nýja laugarhúsið segir Kristján munu uppfylla allar nútímakröfur, auk þess sem nýju pottarnir verði steyptir og í stíl við laugina í stað plastpottanna sem fyrir voru. „Laugin er friðlýst svo við hróflum ekkert við henni, enda er hún í góðu standi,“ segir Kristján.

Uppbygging til framtíðar

Helsta aðdráttarafl laugarinnar sé staðsetningin og umhverfið, þarna sé frið- og skjólsælt og notalegt að vera. „Við vonumst bara til þess að geta opnað fyrri part sumars þótt ekki sé komin dagsetning á það ennþá. Markmiðið er bara að skila af sér góðri aðstöðu til framtíðar,“ segir Kristján og bætir við að með nýrri aðstöðu gefist jafnvel færi á vetraropnun, svo sem einstakar helgar eða fyrir hópa.

„Það er mikil spenna fyrir nýju húsi. Það eru margir sem hafa sterk tengsl við laugina og margir voru sammála um að húsið væri orðið úrelt. Maður hafði einhverjar áhyggjur af því að húsið væri farið að hafa eitthvert gildi fyrir fólk, en það virðist ekki vera. Það er aðallega laugin og umhverfið sem fólk sækir í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert