„Ekki eðlilegur málshraði“

Jón Magnússon lögmaður.
Jón Magnússon lögmaður. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Magnússon segir að ekki sé eðlilegur málshraði á máli þeirra sem hafa kært ákvörðun sóttvarnalæknis um að dvelja á sóttkvíarhóteli. Hann segir það óásættanlegt hversu óskaplega langan tíma málið hefur tekið þar sem fólk sé nauðungarvistað á hótelinu. 

„Þetta er svo alvarlegur hlutur, þegar þetta dregst svona á langinn, að fólk fái ekki svar við því hvort það hafi verið staðið að með lögmætum hætti. Þá þýðir það að fólk getur farið í bótamál fyrir það að hafa verið svipt frelsi sínu,“ segir Jón og bætir við að það sé aðeins einn möguleiki í stöðunni. 

Þrjú mál, er varða sjö einstaklinga, voru tekin fyrir hjá dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis í gær.

Skjólstæðingar Jóns, og fleiri lögmanna, hafa verið vistaðir á sóttkvíarhótelinu síðan 1. apríl og ættu samkvæmt reglum um sóttkvíarhótelið að losna á morgun. Kveðið verður upp úr um úrskurðinn í dag, að öllum líkindum eftir hádegi, og ef niðurstaðan verður sú að krafa sóttvarnalæknis um dvöl á sóttkvíarhóteli sé ólögmæt losna því skjólstæðingar hans aðeins degi fyrr. 

Jón gerir ráð fyrir að ef málið fari svo að krafa sóttvarnalæknis verði metin lögmæt muni umbjóðendur hans og fleiri lögmanna láta á það reyna fyrir Landsrétti. 

„Ég reikna með því að aðilar vilji láta á það reyna til þrautar. Það koma upp ýmsar spurningar í sambandi við þetta, vegna þess hve þetta hefur tekið óskaplega langan tíma, því þetta er ekki eðlilegur málshraði á þessu þegar fólk er nauðungarvistað,“ segir Jón.

Jón hefur áður bent á að sóttvarnalækni beri, samkvæmt stjórnarskrá, að afgreiða mál þess sem er nauðungarvistaður eins fljótt og kostur er. Hann segir þetta ákvæði brotið með seinagangi sóttvarnalæknis. 

„Þetta er svipað og ef maður er nauðung­ar­vistaður, af því þetta er nauðung­ar­vist­un, þá á inn­an 24 klukku­stunda að leiða hann fyr­ir dóm­ara. Hann á bara þann rétt að vera leidd­ur fyr­ir dóm­ara og að það sé skorið úr um málið fyr­ir dóm­stól­um. Þenn­an rétt eiga líka þeir sem eru nauðung­ar­vistaðir með þess­um hætti,“ sagði Jón á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert