Ólíklegt að gönguleiðirnar verði opnar á morgun

Hér má sjá nýju sprunguna.
Hér má sjá nýju sprunguna. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sigurði Bergmann, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum, þykir ólíklegt að gönguleiðirnar að gosstöðvunum í Geldingadölum verði opnaðar á morgun, þriðjudag. Leiðunum var lokað á hádegi í dag þegar ljóst var að ný sprunga hefði opnast norðan við gosstöðvarnar.

Undanfarna daga hafa gönguleiðirnar verið opnar frá klukkan sex á morgnana til sex á kvöldin með undantekningum þegar veður hefur verið of slæmt. 

Rýming hófst þegar sprungan opnaðist í dag og hefur rýmingin gengið ágætlega. Þegar blaðamaður náði á Sigurði voru þeir nýbúnir að hafa uppi á einum spenntum eldgosaáhugamanni og sáu á vefmyndavél Rúv að þeir þyrftu að fara aðra ferð til að sækja annan spenntan áhugamann sem sást í beinu útsendingunni. 

Sjúkratjald björgunarsveitarinnar Þorbjörns var staðsett austan við bæði eldgosið og nýju sprunguna og hefur það verið tekið niður. Því verður komið aftur upp þegar ástand leyfir. 

Allir viðbragðsaðilar á svæðinu munu funda nú síðdegis og ákvörðun um framhaldið verður tekin þá.

Sjúkratjald björgunarsveitarinnar var um 200 metra frá sprungunni.
Sjúkratjald björgunarsveitarinnar var um 200 metra frá sprungunni. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert