Skilur að fólk hafi aðra skoðun

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá deild almannavarna, segist hafa skilning á …
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá deild almannavarna, segist hafa skilning á því að skiptar skoðanir séu á sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segist hafa skilning á því að það séu skiptar skoðanir á sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún. 

„Ég held það sé bara eðlilegt í svona réttarríki eins og við búum í að það séu skiptar skoðanir á þessum hlutum. Sóttvarnalæknir einblínir á að stoppa faraldurinn og hans leiðbeiningar byggjast á því,“ segir Rögnvaldur. Hann segir að málin sem nú eru rekin fyrir dómstólum séu ekki endilega merki um að minni samstaða sé í þjóðfélaginu.

Alls hafa verið lagðar fram fimm kærur er varða vistun á sóttkvíarhótelinu. Þrjár þeirra voru teknar fyrir hjá dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og er niðurstöðu að vænta í dag.

„Verkefni Almannavarna er að styðja við það og þessi leið sem var valin að fara, að bjóða upp á sóttkvíarhótel, miðar að því að loka fyrir ákveðna leið sem við höfum ítrekað séð. Hingað til höfum við valið að treysta fólki og það er það sem við viljum gera umfram annað. En þegar við höfum lent ítrekað í því að fólk er ekki að fara eftir reglunum þá þarf að gera eitthvað,“ segir Rögnvaldur.

Hann segist á sama tíma hafa skilning á því að ekki allir séu sammála þessu. „Búandi í réttarríki þar sem við metum frelsi fólks og mannréttindi mjög mikils þá finnst mér mjög eðlilegt að fólk skoði það. Okkar fókus í þessu verkefni er að stoppa faraldurinn og við veljum þessa leið. Síðan eru aðrir sem hafa aðra skoðun á því og ég hef skilning á því,“ segir Rögnvaldur. 

Hann segir að ekki megi gleyma því að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi latt fólk til ferðalaga og sagt að þetta væri ekki rétti tíminn til að ferðast.

mbl.is

Bloggað um fréttina