Þyrla Gæslunnar aðstoðar við rýmingu

Ein þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út að gossvæðinu í Geldingadölum um klukkan 12 í dag að beiðni Almannavarna. Um borð í þyrlunni eru tveir sérsveitarmenn.

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landshelgisgæslunnar, var óskað eftir aðstoð þeirra við að rýma gossvæðið. Þyrlan mun sveima yfir svæðinu til að ganga úr skugga um að enginn leynist á svæðinu og vera til taks ef á þarf að halda.

Ekki hafa verið skipulagðar aðrar þyrluferðir yfir svæðið, svo sem með vísindamönnum, en þó er ekki útilokað að það verði gert síðar í dag.

Nýja sprungan er um 500 metrum frá fyrri sprungum.
Nýja sprungan er um 500 metrum frá fyrri sprungum. Ljósmynd/Gísli Matthías Gíslason

Sigurður Bergmann, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að rýming gangi vel en þó nokkuð hægt enda fólk á öllum aldri á svæðinu. Nær allir séu komnir niður á gönguleið þótt eitt og eitt andlit skjóti upp kollinum nærri gossvæðinu. Þau séu gripin í vefmyndavélum.

Hraunið rennur í átt að Meradal. Þótt ekki sé mikill ákafi í gosinu er svæðið nokkuð bratt, sem eykur rennsli hraunsins. „Þetta rennur hraðar en hraunið ofan í [Geldinga-]dalinn,“ segir hann. Óvíst er hvort hraunrennslið mun hafa áhrif á akstursleið viðbragðsaðila að svæðinu, sem liggur um Meradal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert