„Fikrum okkur hægt niður í 65+“

Rögnvaldur Ólafsson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller sátu fyrir svörum …
Rögnvaldur Ólafsson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller sátu fyrir svörum á fundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Almannavarnir

Ekki liggur ljóst fyrir hvort fólk yngra en 70 ára sem hefur fengið fyrri bólusetningu með bóluefni AstraZeneca verður bólusett með því bóluefni eða hvort annað bóluefni verður notað. Rannsóknir eru í gangi á því hvort hægt sé að bólusetja seinni skammtinn með öðru bóluefni og að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis eru einhverjar þjóðir með það í athugun að gera það. 

Þórólfur á ekki von á öðru en farið verði að fikra sig hægt niður í 65+ þegar búið verður að bólusetja 70 ára og eldri með bóluefni AstraZeneca. Nú er miðað við að nota það bóluefni fyrir 70 ára og eldri en eitthvað var um að ungt fólk væri bólusett með því áður en hætt var tímabundið að nota bóluefnið hér á landi vegna mögulegra tengsla við blóðtappa. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Þórólfur var spurður út í væntanlega tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu um tengsl á milli AstraZeneca-bóluefnisins og blóðtappa en hann á eftir að sjá þá tilkynningu og segir að framhaldið verði skoðað þegar þær upplýsingar liggja fyrir.

Eins og fram hafi komið hafi blóðtappar og blæðingavandamál sést hjá yngra fólki, fólki yngra en sextugu. Ef það er niðurstaða Lyfjastofnunar Evrópu að áhættan sé mest meðal yngra fólks muni það ekki breyta miklu varðandi bólusetningar hér á landi. Ef það kemur aftur á móti eitthvað nýtt fram varðandi eldra fólk verði það skoðað segir Þórólfur. 

Ekki framkvæmanlegt að loka landinu

Spurður út í lokun landsins segir Þórólfur að hér á landi sé reynt sé að finna þá sem raunverulega eru að bera smit og þannig minnka áhættuna. Hann sé ekki viss um að það sé framkvæmanlegt að loka landinu og hann hafi ekki fengið þau svör hjá neinum að það sé hægt.

Enda einhverjir Íslendingar sem verði að fara til útlanda vegna sinnar vinnu og jafnframt sé  ýmis starfsemi hér á landi sem krefjist þess að fólk komi hingað til lands. Það sé hans skoðun að hægt sé að lágmarka hættuna á smitum með þeim aðgerðum sem hér hafa verið og hann eigi von á því að svo verði áfram.

Spurð út í hvað sé markmiðið varðandi bólusetningar áður en hægt verður að aflétta hömlum vegna Covid-19 hér á landi segja þau Þórólfur og Alma Möller landlæknir að markmiðið sé 50% af þjóðinni. Þegar því markmiði verði náð séum við komin mjög vel á veg með bólusetningar en ekkert víst að þetta standist. Heldur þurfi að horfa á þetta í ljósi aðstæðna, svo sem ný afbrigði, virkni bóluefna, hver verður staðan erlendis og fleira. 

Bretar eru búnir að bólusetja um 50% af þeim sem á að bólusetja og eru að byrja með sínar varfærnu afléttingar segir Alma. Ný afbrigði setja fyrri áætlanir í uppnám. Afbrigðið sem fyrst greindist í Bretlandi er að smitast meðal ungs fólks og geri þetta allt flóknara. 

Spurður út í ákvörðun héraðsdóms í gær hefur Þórólfur ekki sent tilmæli til yfirvalda um mögulegar breytingar á reglugerð en þetta sé til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu. Hvað varðar þá sem þegar hafa yfirgefið sóttvarnahótelið hvetur Alma þá til að lesa gaumgæfilega leiðbeiningar varðandi sóttkví í heimahúsi og fylgja þeim til hins ýtrasta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert