„Klúður á ábyrgð stjórnvalda“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir að fram hafi komið á …
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir að fram hafi komið á fundi velferðarnefndar að reglugerðarsetningin hafi verið klúður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Velferðarnefnd fundaði í dag í fjóra tíma um aðgerðir á landamærunum. Hófst fundurinn  klukkan tíu í morgun og lauk klukkan tvö í dag. 

„Mér fannst aðallega koma í ljós að þessi reglugerðarsetning er bara klúður á ábyrgð stjórnvalda,“ segir Halldóra Mogensen, sem óskaði eftir fundinum í kjölfar umfjöllunar um setningu reglugerðar um skyldudvöl í sóttvarnahúsi, sem dæmd var ólögmæt.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir voru gestir á fundinum ásamt Berglindi Svavarsdóttur formanni Lögmannafélagsins og Reimari Péturssyni lögmanni ásamt öðrum.

„Ég er ekki viss um að það að kæra til æðra dómstigs og vona það besta sýni lausnamiðaða hugsun. Við eigum að geta komið í veg fyrir útbreiðslu án þess að brjóta á réttindum borgaranna. Á fundinum komu fram þau sjónarmið að við ættum ekki að ganga lengra en núgildandi lög kveða á um. Við ættum að skoða vægari úrræði fyrst, t.d. að auka eftirlit,“ segir hún.

Minnisblað sóttvarnalæknis fullnægjandi grundvöllur?

„Þótt vel hafi tekist til með að koma í veg fyrir smit frá ferðamönnum þá er hægt að bæta ákveðnar aðgerðir án þess að þær verði of íþyngjandi,“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis, þar sem lagt var til að samráð verði haft um að skylda flesta eða alla þá sem ferðast til landsins í sóttvarnahús.

Ekki kemur þar fram algengi þess að ferðamenn virði ekki sóttkví né hvort þeir sem eiga samastað á Íslandi geri slíkt en Halldóra Mogensen þingmaður Pírata sagði í samtali við mbl.is í dag að skortur væri á gögnum um grundvöll ákvörðunarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert