Myndi sjálf dvelja í Korpuskóla eftir lagfæringar

Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin …
Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin á mygluvandræðum í Fossvogsskóla. Ljósmynd/mbl.is

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur Eflu verkfræðistofu, hefur farið fyrir rannsóknum Eflu á húsnæði Korpuskóla vegna myglu. Kennsla nemenda úr Fossvogsskóla hefst á morgun í húsnæði Korpuskóla í Grafarvogi eftir þrálát mygluvandamál í húsnæði Fossvogsskóla síðan árið 2018.

Búið er að ráðast í lagfæringar á húsnæði Korpuskóla og telur Reykjavíkurborg óhætt að hefja kennslu þar á morgun. Lagfæringarnar voru kynntar fyrir foreldrum nemenda í Fossvogsskóla á fjarfundi með fulltrúum skóla- og frístundasviðs og Sylgju frá Eflu.

Foreldrar margir önugir

Foreldri barns í Fossvogsskóla spurði Sylgju að því hvort hún væri tilbúin til þess að dvelja meirihluta úr degi, dag eftir dag, í Korpuskóla eftir að ráðist var í lagfæringar þar. Þessu svaraði Sylgja játandi, hún væri tilbúin til þess.

Þá spurði annað foreldri hvort lægi fyrir um hvenær börn gætu aftur stundað nám í húsnæði Fossvogsskóla og hvort væri verið að kanna það yfir höfuð. Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogskóla, sagði að það lægi ekki fyrir.

Þá segir annað foreldri að barn hennar fyndi fyrir einkennum í húsnæði Korpuskóla og spurði hvort búið væri að gera ráð fyrir einhverjum úrræðum fyndu börn fyrir einkennum þar. Ingibjörg skólastjóri svaraði að gert hefði verið ráð fyrir að börn gætu ekki fundið fyrir einkennum myglu í Korpuskóla og því hefði engin vinna farið fram um úrræði vegna þess. 

Uppfært:

Sylgja Dögg hafði samband við blaðamann og vildi árétta að hún slægi vissulega varnagla um það að dvelja í Korpuskóla. Hún segist standa við þau orð að hún myndi sjálf dvelja í Korpuskóla, eins og hún var spurð að á fundinum, en hún segist að sjálfsögðu ekki geta fullyrt að enginn muni kenna sér meins af dvöl í húsnæðinu, sérstaklega ekki þegar um börn væri að ræða sem áður hafa fundið fyrir einkennum vegna myglu. 

mbl.is