Ólíklegt að hætta stafi af sprungum

Frá gossvæðinu í Meradölum.
Frá gossvæðinu í Meradölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið er um sprungur í jarðvegi í nágrenni gossvæðisins í Geldinga- og Meradölum. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus telur ólíklegt að hætta stafi af sprungunum eftir að verulega dró úr jarðskjálftavirkni á svæðinu þegar gosið hófst. 

„Það er mikið af nýjum sprungum á öllu svæðinu og það er verið að vinna í því eftir því sem aðstæður leyfa að kortleggja þetta. Þetta er mest eftir skjálftana í aðdraganda gossins sem hófust 24. febrúar, og stóðu yfir alveg þangað til gosið byrjaði, þá dró verulega úr skjálftavirkninni. Það var aðallega á þessu tímabili sem menn óttuðust grjóthrun, þá hreyfðust sprungur víða þar sem skjálftarnir áttu upptök víða á svæðinu,“ segir Páll. 

Athygli hefur verið vakin á sprungum, meðal annars í fjallinu Stóra-Hrút, á samfélagsmiðlum, einkum í facebookhópnum Jarðsöguvinir. 

„Þegar fólk er mikið að þvælast um svæðið rekst það á þetta og finnur alls konar merkilega hluti,“ segir Páll, sem telur ólíklegt að hætta stafi af sprungunum:

„Það er frekar ólíklegt að það sé hætta af þessu, það var aðallega þegar stærri skjálftar voru. Það er hættuástand á svæðinu en ég held að þetta sé ekki með því hættulegasta.“

Dregið úr hraunflæði 

Páll segir ljóst að umhverfið eigi eftir að taka talsverðum breytingum í grennd við gossvæðið. 

„Núna streymir hraun niður í Meradali og það kemur jafnvel til með að þekja dalbotninn. Það safnaðist vatn þarna á vorin yfirleitt, þessir dalir eru afrennslislausir svo eftir veturinn myndast þarna pollar. Það er væntanlega liðin tíð núna. Svo eru Geldingadalir nánast horfnir, þeir eru orðnir nánast fullir af hrauni og Meradalir stefna í eitthvað svipað,“ segir Páll. 

Vísindamenn reyna nú að kortleggja rúmmál hraunsins í Geldingadölum, en svo virðist sem verulega hafi dregið úr hraunrennsli þar eftir að gossprunga opnaðist norðar á mánudag. 

„Það hefur stórlega dregið úr hraunrennslinu í Geldingadölum og það á eftir að koma í ljós hvað verður þegar hraunrennslið verður kortlagt, en það bendir ýmislegt til þess að það hafi dregið verulega úr flæðinu eftir að það fór að gjósa þarna norðar. Það þarf tíma til að meta rúmmálið á hrauninu áður en það er hægt að segja eitthvað um rennslið. Það er allt í fullum gangi, en það þarf að líða smá tími til að það sjáist breytingar. Það þarf að hafa þolinmæði,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert