Öll áætlanagerð út um gluggann

Björgunarsveitarmenn við eldgosið í Geldingadölum.
Björgunarsveitarmenn við eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir að björgunarsveitir fái skipulagsdag í dag, en ólíklegt er að opnað verði fyrir umferð um gossvæðið í Geldingadölum í dag. Ekki veitir af, en formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar segir að vegna atvika gærdagsins og næturinnar hafi öllum áætlunum sem gerðar höfðu verið fyrir næstu vikur verið hent út um gluggann.

„Mér sýnist það verði tekinn skipulagsdagur,“ segir Bogi í samtali við mbl.is, en yfir standa fundahöld Almannavarna, Veðurstofu og annarra viðbragðsaðila vegna nýrrar gossprungu sem opnaðist um miðjan dag í gær. Þá urðu björgunarsveitarmenn varir við landsig á milli nýju og gömlu sprungnanna í nótt, sem gæti verið undanfari enn annarrar sprungu.

„Það er ekki lengur sama umhverfi. Nú er það ekki bara gasið heldur súrefnisskortur í dölunum sem við þurfum að passa okkur á. Við þurfum aðeins að fá að ná utan um þetta,“ segir Bogi. „Áætlanagerð fyrir síðasta hálfa mánuðinn, ég opnaði bara gluggann áðan og sturtaði henni út. En þetta hefst allt saman að lokum.“

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar.
Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert