Ráðuneytið reyni að blekkja almenning

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Félag atvinnurekenda segir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fela staðreyndir í tengslum við útboð á tollkvóta og reyna að blekkja almenning.

Fyrr í kvöld sendi ráðuneytið frá sér tilkynningu í tilefni af umfjöllun um erindi félagsins til ráðuneytisins um nýlegan dóm Landsréttar um úthlutun tollkvóta.  

„Hér felur atvinnuvegaráðuneytið beinlínis staðreyndir málsins og reynir að blekkja almenning. Ráðuneytið lætur eins og umdeild breyting á búvörulögum í lok síðasta árs, að frumkvæði landbúnaðarráðherrans, hafi aldrei verið gerð. Með henni var tekið upp tímabundið í 18 mánuði kerfi útboðs á tollkvóta, sem Landsréttur hefur dæmt að fari í bága við stjórnarskrána,“ segir á facebook-síðu Félags atvinnurekenda.

„Það eru gildandi lög og verður að breyta þeim til að hætta stjórnarskrárbrotinu. Brot ráðherra á stjórnarskránni og lögum um ráðherraábyrgð er jafnalvarlegt þótt það sé tímabundið,“ segir einnig á síðunni þar sem ráðuneytið er hvatt til að leiðrétta rangfærslur og koma heiðarlega fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert