Fólk fætt 1945 og eldra í dag og 70+ á morgun

Bólusetning í Laugardalshöll gengur vel.
Bólusetning í Laugardalshöll gengur vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetningar við kórónuveirunni hafa gengið vel í dag, segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við mbl.is. Fólk fætt árið 1945 fær í dag sína seinni Pfizer-sprautu. 

Ragnheiður segir að síminn stoppi ekki vegna fyrirspurna þeirra sem vilja velja hvaða bóluefni þeir fá. Ragnheiður ítrekar að það sé ekki hægt. Afþakki fólk bólusetningu á þessum grundvelli fer það aftast í röðina og þá er ekki hægt að segja til um hvaða bóluefni fólk fær. 

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

„Þetta hefur gengið bara rosalega vel í dag. Við erum að bólusetja þá sem eru fæddir 1945 í dag og þeir eru að fá seinni Pfizer-skammtinn. Þetta eru svona í kringum fjögur þúsund manns,“ segir Ragnheiður. 

Ábending barst mbl.is um að örtröð væri á bílastæði við Laugardalshöll, þar sem bólusetningin fer fram, en Ragnheiður segir svo ekki vera. Bólusetninguna taki fljótt af og nóg sé af bílastæðum. Þar að auki sé lögregla á staðnum sem stýrir umferðinni. 

Fikra sig niður forgangshópana

Ragnheiður segir að í dag hafi einnig hafist bólusetning heilbrigðisstarfsmanna utan stofnana. Dæmi um slíka heilbrigðisstarfsmenn væru fótatæknifræðingar á stofnum, sálfræðingar á stofum, húðlæknar og annað slíkt.

Að sögn Ragnheiðar hefur mikið borið á því að fólk sem tilheyrir þessum hópi hafi hringt og spurt hvort verið væri að klára bólusetningu þeirra og vill hún árétta að hún sé aðeins að hefjast, en ekki klárast.

Á morgun hefjast svo bólusetningar allra sem eru 70 ára og eldri og verður þeim gefið bóluefni AstraZeneca. 

mbl.is