Hlekkir á vefsíðu í bréfpósti Skattsins

Ekki hafa enn borist svör frá póstaglöðum Skattinum um atvikið.
Ekki hafa enn borist svör frá póstaglöðum Skattinum um atvikið. mbl.is/sisi

Svo virðist sem eitthvað hafi misfarist hjá starfsmönnum Skattsins þegar þeir ætluðu að rukka Pétur Húna Björnsson söngvara um útvarpsgjaldið, sem allir íslenskir ríkisborgarar verða að greiða.

Félag í eigu Péturs fékk bréfpóst þess efnis þar sem fram komu leiðbeiningar um hvernig greiða mætti gjaldið og var Pétri boðið að „sjá nánar hér“ á hinum ýmsu stöðum, líkt og um vefviðmót væri að ræða. 

„Ég stökk auðvitað til og ætlaði að borga en þá áttaði ég mig á að ég gat ekki smellt á neitt í bréfinu,“ segir Pétur og hlær.

Látum okkur sjá... Kærar þakkir Innheimtumaður ríkissjóðs. #paperemail

Posted by Pétur Húni on Þriðjudagur, 6. apríl 2021

Vaxtarverkir hins gamla

Pétur kveðst vera búinn að borga útvarpsgjaldið enda fékk hann tölvupóst þar sem sömu upplýsingar og í bréfpóstinum komu fram, að hann ætti óopnað skeyti frá Skattinum á sínu heimasvæði inni á vefnum Ísland.is. Hann fékk semsé bréfpóst um að honum hafi borist tölvupóstur. 

„Þetta eru auðvitað bara einhverjir vaxtarverkir eða breytingaverkir sem lýsa sér þannig að við erum að færa okkur úr svona fýsískum viðskiptum yfir í að allt sé á netinu og þá er þetta millibilsástand þar sem við stöndum frammi fyrir því að það er einhver krafa á stjórnvöld um að senda fólki einhverjar bréflegar ábendingar. Og við stöndum bara á einhverjum asnalegum stað í því að þetta breytist,“ ályktar Pétur og kveðst hinn rólegasti yfir þessu öllu saman. 

mbl.is