Krafa Þórólfs gildir til þrjú

Landsréttur kveður upp úrskurð í málinu, að líkindum í dag.
Landsréttur kveður upp úrskurð í málinu, að líkindum í dag. mbl.is/Hanna

Krafa Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, um að þrír aðilar dvelji í sóttvarnahúsi, rennur út klukkan þrjú í dag samkvæmt heimildum mbl.is, þar sem fjölskyldan sem á hlut að máli losnar þá úr sóttkví. 

Eftir að fjölskyldan er laus úr sóttkví eiga yfirvöld enga lögvarða hagsmuni af því að fjölskyldunni skuli haldið í sóttvarnahúsi enda fimm dagar liðnir frá því hún fór í sóttkví.

Héraðsdómur komst að því að ólögmætt væri að skylda fólk í sóttvarnahús en Þórólfur hefur kært úrskurðinn til Landsréttar.

Úrskurður héraðsdóms, þar sem skyldudvöl í sóttvarnahúsi var dæmd ólögmæt, er réttur þar til dómstólar komast að öðru. Því er ekki útilokað að hann fái að standa, kveði Landsréttur ekki upp úrlausn fyrir klukkan þrjú í dag.

Ekki fer fram þinghald í Landsrétti þegar úrskurðir eru annars vegar. Verða þeir sendir lögmönnum málsaðila með tölvupósti þegar þeir eru kveðnir upp og loks birtir á vef Landsréttar en engir úrskurðir í málinu hafa birst á vef héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert