Ljóst hvar hættusvæðið er

Eldgosið á Reykjanesi heldur áfram að breiða úr sér.
Eldgosið á Reykjanesi heldur áfram að breiða úr sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefðbundinn viðbúnaður er hjá björgunarsveitarfólki á gosstöðvunum í dag en opnað var fyrir aðgang almennings klukkan sex í morgun eftir að hafa verið lokaður frá því á mánudag er ný sprunga opnaðist. Fólk er beðið að búa sig vel þar sem það er kalt og gæta að sóttvörnum. Eins að vera viðbúið því að mögulega þurfi að rýma svæðið.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að nú séu 15-20 björgunarsveitarmenn á svæðinu auk lögreglu. Um hefðbundinn viðbúnað er að ræða og auk björgunarsveita og lögreglu er slökkvilið Grindavíkur með viðbúnað. 

Björgunarsveitarfólk hefur staðið vaktina við gosstöðvarnar á Reykjanesi allt frá …
Björgunarsveitarfólk hefur staðið vaktina við gosstöðvarnar á Reykjanesi allt frá því gosið hófst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að björgunarsveitarfólk hafi átt góð samskipti við gesti á gosstöðvunum og yfir engu sé að kvarta þar. Nú sé orðið betur ljóst hvar hættusvæðið er og engum ráðlagt að fara þangað sem hraunið er að koma upp, hryggurinn þar sem ný sprunga opnaðist á mánudag á milli Geldingadala og Meradals og þar sem þriðja sprungan opnaðist á miðnætti, en björgunarsveitarfólk fann jarðsig þar í gær líkt og fram kom í frétt mbl.is í nótt.

„Það er mikilvægt að fólk fari varlega og fylgi fyrirmælum. Það þarf að vera vel klætt miðað við veðrið í dag og tilbúið til að vera þarna í einhvern tíma,“ segir Davíð Már og bendir á að fólk þurfi að vera viðbúið því að svo geti farið að rýma þurfi svæðið skyndilega. „En við höfum ekki yfir neinu að kvarta í samskiptum við fólk,“ segir Davíð Már í samtali við mbl.is.

Í gær vann björgunarsveitarfólk að því að stika breytta leið að gosstöðvunum en um er að ræða breytingu á A-leiðinni. Það verkefni kláraðist í gær segir Davíð Már. 

Lokað verður fyrir alla umferð að gosstöðvunum kl. 18:00 eða fyrr ef nauðsyn krefur.
Viðbragðsaðilar munu að óbreyttu hefja rýmingu á gossvæðunum kl. 22:00.
mbl.is