Ný reglugerð taki gildi sem fyrst

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Arnþór

Sóttvarnalæknir er með minnisblað í smíðum sem verður sent heilbrigðisráðherra í kjölfar frávísunar Landsréttar á kæru hans vegna úrskurðar héraðsdóms um að ólögmætt sé að skylda fólk í sóttvarnahús.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

„Við munum í sameiningu freista þess að ná þeim árangri eftir sem áður að takmarka líkur á smitum á landamærunum. Það er markmiðið og vonandi finnum við góðar leiðir til þess en þær útiloka samt sem áður ekki að við þurfum að leita leiða til að bæta lagaumhverfið,“ segir Svandís.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fara fyrst yfir stöðuna á grundvelli gildandi laga 

Spurð hvort nýtt frumvarp verði lagt fram um sóttvarnahús segir hún fyrstu skrefin vera þau að fara yfir stöðuna á grundvelli gildandi laga. „Það skiptir máli að ný reglugerð taki gildi eins fljótt og hægt er og svo metum við á grundvelli þess hvort við þurfum að fara fram með einhvers konar breytingar á sóttvarnalögum til að styrkja grunninn,“ bætir hún við og segir nýja reglugerð taka gildi á allra næstu dögum.

Hún gerir ráð fyrir að málið verði rætt á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn.

Lögmenn fólks sem þurfti að sæta dvöl í sóttvarnahúsi sögðust í samtali við mbl.is fyrr í kvöld vera vonsviknir yfir því að ekki hafi komið fram efnisdómur í Landsrétti vegna málsins.

Aðspurð segist Svandís vera sama sinnis. „Ég held að það hefði verið málinu til góðs, sérstaklega þeim sjónarmiðum sem lúta að almannahagsmunum, að fá efnislega umfjöllun í Landsrétti um þessi mál. Þetta eru mjög ríkir hagsmunir sem eru þarna undir fyrir samfélagið allt, þannig að það hefði verið gott fyrir málið.“

Annar lögmannanna, Jón Magnússon, sagði sóttvarnalækni geta sjálfum sér um kennt. Ef málið hefði verið rekið með eðlilegum hraða og hann hefði komið málinu, strax og kærur bárust, í farveg fyrir héraðsdóm hefði fólkið ekki verið laust úr þessum viðjum þegar Landsréttur hefði kveðið upp sinn dóm.

Þessu vísar Svandís á bug. „Sóttvarnalæknir fékk niðurstöðuna á mánudagskvöldi og öll gögn voru komin til héraðsdóms á hádegi daginn eftir. Þetta eru ekki rök í málinu á nokkurn hátt,“ greinir hún frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina