Sprungan eins og pípulögn sem lekur

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er best að hugsa um þetta sem eina sprungu en það gýs úr henni á nokkrum stöðum. Umræðan verður svo ruglingsleg ef það er sífellt verið að tala um nýjar sprungur,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, í samtali við mbl.is um eldgosið á Reykjanesi. 

Fyrst byrjaði að gjósa í Geldingadölum en í fyrradag opnaðist jörðin norðaustan við Geldingadali og flæðir hraunið nú bæði þangað niður og í Meradali. Gangurinn eða sprungan sem liggur á þessu svæði sem nær frá Keili og suður í Nátthaga er á milli átta og níu kílómetrar að lengd. 

„Þegar þetta er allt skoðað þá liggur þetta í línu. Stefnan er aðeins misjöfn vegna þess að veikleikar í landslaginu ráða hvar þetta kemur nákvæmlega upp en þetta er allt sama sprungan,“ útskýrir Magnús enn frekar.

Magnús líkir þessu einnig við leka pípulögn. Það hafi verið gat á henni á einum stað og þar hafi lekið úr henni. Svo þegar fyrirstaðan á þeim stað varð meiri fór að leka annars staðar úr lögninni.

Frekari gögn um rennslið berist á morgun

Ekki er að sjá að orðið hafi stigmögnun á gosinu að sögn Magnúsar þrátt fyrir að fyrst eftir að byrjaði að gjósa fyrir ofan Geldingadali hafi flæðið aukist aðeins. Rennslið er nú komið aftur í jafnvægi en frekari tölur berast á morgun. 

„Það er verið að safna gögnum um hvernig flatarmál hraunsins breytist og rúmmálið og hversu mikið rennsli hrauns er.“

Á föstudaginn síðasta settu vísindamenn upp myndavél sem tekur myndir með ákveðnu millibili á stað þar sem hægt hefði verið að greina þegar hraunið í Geldingadölum byrjaði að flæða yfir í Meradali.

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði.
Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði. Ljósmynd/Almannavarnir

Vefmyndavélarnar gagnlegar vísindamönnum

„Það vildi svo skemmtilega til að vélin sá þegar sprungan opnaðist í fyrradag. Hún tímasetur það og náði því. Það gerist ellefu mínútum fyrir  tólf að sprungan opnast,“ segir Magnús og tekur fram hvað vefmyndavélar sem bæði mbl.is og RÚV hafa komið fyrir á svæðinu eru mikilvægar. 

„Það er feikigagnlegt að hafa þessar vélar frá ykkur og RÚV. Það er mjög gagnlegt fyrir okkur að horfa á þetta – og gott að það sé ekki alltaf verið að „zooma“ inn og út. Þetta nýtist manni mjög vel til að sjá stöðuna,“ bætir hann við.

Þegar mbl.is náði tali af Magnúsi voru þýskir vísindamenn nýfarnir af skrifstofunni hjá honum en þeir eru hér á landi til að taka myndir og rannsaka gossprungur og hraungos líkt og þeir gera annars staðar í heiminum. Magnús segir mikið um að erlendir vísindamenn hafi komið til að fylgjast með þróun mála. 

„Það er slatti af fólki frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi. Slatti af fólki sem er hérna að fylgjast með þessu og stunda rannsóknir. Fólk leggur á sig að fara í sóttkví og fleira til að komast hingað,“ segir hann að lokum.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Um er að ræða eina sprungu sem gýs á mörgum …
Um er að ræða eina sprungu sem gýs á mörgum stöðum. mbl.is/Ólafur Þórisson
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert