Tvöfalt meiri kvika vellur upp

Meradalir Tignarleg hrauná liggur frá gossprungunum sem opnuðust í fyrradag …
Meradalir Tignarleg hrauná liggur frá gossprungunum sem opnuðust í fyrradag og niður í Meradali þar sem hraunið breiðir úr sér á dalbotninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta heldur áfram að koma okkur á óvart,“ sagði dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við HÍ, um eldsumbrotin í Fagradalsfjalli. Í gær gusu bæði gígopin í Geldingadölum og eins gossprungurnar sem opnuðust fyrir ofan Meradali í fyrradag.

Í fyrrinótt myndaðist um 150 metra löng yfirborðssprunga á milli þar sem gaus í gær. Þar hafði orðið um eins metra jarðsig. Það bendir til þess að þar undir hafi orðið gliðnun, mögulega vegna þess að kvikugangurinn þar undir hafi breikkað. Þorvaldur sagði það ekki óeðlilegt. Hann sagði að það væri alveg mögulegt að kvika kynni að leita þar upp á yfirborðið.

Þorvaldur minnti á að Ásta Rut Hjartardóttir jarðeðlisfræðingur og fleiri hefðu kortlagt sprungur norður af Geldingadölum fyrir fáeinum dögum sem náðu næstum að sprungunum sem fóru að gjósa í fyrradag.

„Jarðeðlisfræðingar reiknuðu út að innflæði kviku í ganginn væri 10-15 rúmmetrar á sekúndu, miðað við aflögunina sem varð. Nú vitum við að gosið í Geldingadölum var að skila 4-5 rúmmetrum á sekúndu og nýju sprungurnar skila eitthvað svipuðu og hafa tvöfaldað kvikuframleiðsluna. Innflæðið í kerfið er þó líklega meira en útflæðið. Því gæti mögulega opnast sprunga á milli gosstöðvanna eða norðan við nýju sprungurnar. Eins gæti kvikuflæðið úr gígunum aukist,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði að ef kvikuflæði til yfirborðs myndi aukast stæði það líklega stutt og gæti bent til þess að gosið færi að taka enda.

Talsvert hrundi úr gígbarmi Suðra ofan í gíginn í gær. Þorvaldur sagði að líklega hreinsuðu gígarnir sig eftir slíkt hrun. Hrauntjörnin í Norðra lækkaði eftir að hraunáin þar fyrir framan tæmdist að hluta í fyrradag, að því  er segir í umfjöllun um gosið í Morgnblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »