Færð tekin að spillast fyrir austan

mbl.is/​Hari

Slæm færð og vont veður er víða á fjallvegum austanlands og búið að loka Fjarðarheiðinni en lögreglan þurfti að aðstoða einhverja ökumenn þar í morgun samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum. Gul viðvörun tekur gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi síðar í dag og gildir hún til morguns. 

Austfirðir - gul viðvörun frá klukkan 19 í kvöld til sex í fyrramálið. „Norðvestanhvassviðri eða stormur, 18-23 m/s. Mjög snarpar vindhviður, allt að 35 m/s. Fólk er hvatt til að sýna aðgát á ferðalögum og tryggja lausamuni.“

Suðausturland - gul viðvörun frá klukkan 15 og gildir hún til fimm í fyrramálið. „Norðanhvassviðri eða stormur austan Öræfa, 18-28 m/s með hviðum allt að 35 m/s. Sandfok líklegt svo ferðalangar eru hvattir til að sýna aðgát og fólk að tryggja lausamuni.“

Vetrarfærð er á landinu, éljagangur og skafrenningur víða. Ófært er á Fjarðarheiði eins og áður sagði vegna veðurs og ekki er útlit fyrir að takist að opna hana í dag. Vegurinn um Öxi er lokaður vegna snjóa. Þungfært er á Breiðdalsheiði og skafrenningur.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og víða skafrenningur. Þungfært er á Laxárdalsheiði og í Álftafirði á Skógarströnd.

Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er víðast hvar á Vestfjörðum en þæfingur er á Þröskuldum. Ófært er norður í Árneshrepp.

Þæfingsfærð er í Víkurskarði og vegurinn um Hólasand er ófær vegna snjóa. Þæfingur á Hófaskarði og skafrenningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert