Færri innlagnir en spítalinn óttaðist

„Við vitum ekki nákvæmlega hver skýringin er en við erum …
„Við vitum ekki nákvæmlega hver skýringin er en við erum að velta fyrir okkur hvort það sé vegna þess að þetta er að meðaltali yngra fólk sem hefur verið að smitast heldur en í fyrri bylgjum,“ segir Már Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Færri hafa lagst inn á spítala í fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins hérlendis en búist var við. Landspítali óttaðist að allt að 10% þeirra sem sýktust þyrftu á innlögn að halda, í stað 4% í fyrri bylgjum. Var það vegna útbreiðslu breska afbrigðisins og reynslu erlendra þjóða af því.

Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala. Í gær tilkynnti spítalinn að hann hefði verið færður af hættustigi niður á óvissustig. Er það m.a. vegna þess að enginn hefur verið inniliggjandi vegna Covid-19 síðan á skírdag.

„Það eru svo sem áhyggjur vegna þessara smita úti í samfélaginu sem eru utan sóttkvíar. Reynslan okkar í þessari fjórðu bylgju svokölluðu er kannski á þá lund að það virðast ekki vera jafn margir að leggjast inn og við óttuðumst,“ segir Már.

Spurður um skýringar á færri innlögnum en búist var við segir Már:

„Þegar þetta fór af stað, og menn áttuðu sig á því að þetta væri fyrst og fremst breska afbrigðið, þá voru, miðað við reynsluna erlendis frá, allt að 3,6 sinnum fleiri innlagnir miðað við upphaflegu Wuhan-stofnana. Okkar innlagnatíðni hafði verið eitthvað um 4% og það var talað um á fundum almannavarna að það gæti orðið allt að 10%. Það var í ljósi þess sem við vildum fara á hættustig, til þess að setja okkur í þær stellingar. Þetta hefur ekki gerst. Við vitum ekki nákvæmlega hver skýringin er en við erum að velta fyrir okkur hvort það sé vegna þess að þetta er að meðaltali yngra fólk sem hefur verið að smitast heldur en í fyrri bylgjum. Það kann að vera að það sé ein skýringin.“

Ekkert sem bendir til þess að innlagnatíðnin muni fara upp í 10%

Gerið þið þá ekki ráð fyrir að innlagnatíðnin muni fara upp í 10%?

„Ég veit það ekki en miðað við þessa reynslu hingað til í fjórðu bylgjunni þá er ekkert sem bendir til þess.“

Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala taldi ekki þörf á að spítalinn starfaði áfram á hættustigi en með því er innri stjórnun spítalans breytt með ákveðnum hætti.

„Við ákváðum þó að halda ákvörðunum um innra starfið, á borð við takmarkanir á heimsóknartíma, fjölda sem má koma saman og hópaskiptingar og annað slíkt sem hafa verið í gildi síðan við fórum á hættustig, þangað til ný reglugerð kemur frá sóttvarnalækni,“ segir Már.

„Þetta er í rauninni bara svona formleg breyting að því leytinu til að við teljum okkur ráða vel við kringumstæðurnar eins og er á göngudeildinni með þeim almennu ráðstöfunum sem hefur verið gripið til.“

Tilfærslan af hættustigi niður á óvissustig breytir því litlu sem engu.

„Eins og stendur teljum við okkur valda vel verkefninu og þurfa ekki að grípa til sérstakra ráðstafana umfram það sem við höfum gert nú þegar. Ákvarðanir um þann fjölda sem má koma saman innan spítalans er í takti við reglugerð heilbrigðisráðuneytisins og tilmæli sóttvarnalæknis. Jafnvel þótt við sem heilbrigðisstofnun séum undanþegin þegar kemur að sjúklingum og heilbrigðisþjónustu þá er náttúrulega mjög margt sem fer fram innan spítala, fundir og kennsla og ýmislegt þar sem við verðum að hlíta almennum reglum eins og um fjölda sem má koma saman og fjarlægð á milli fólks, viðveru í matsölum og svo framvegis,“ segir Már.

mbl.is

Bloggað um fréttina