Girðingar ónýtar og tún í hættu

Hólmavað við bakka Laxár í Aðaldal.
Hólmavað við bakka Laxár í Aðaldal. Ljósmynd/Hrund Benediktsdóttir

Benedikt Kristjánsson, bóndi á Hólmavaði nærri Laxá í Aðaldal, segir að krapaflóð í ánni sé að mestu gengið niður. Aldrei sé þó að vita hvort áin stíflist aftur. Túngirðingar hans fóru illa út úr flóðinu í dag og útlitið er ekki gott á túnum við bæinn, ekki ef hann heldur áfram að blása að norðan og frysta.

„Tja, nei nei, það er ekkert allt að fara á flot,“ segir Benedikt. „Það er búið núna, hún náði sér fram. Þannig þetta hefur sjatnað allt saman, en hér er alveg hreint hífandi rok og skíta-alveg-hreint-hörkufrost og renningur og svoleiðis þannig að það getur allt saman stíflast aftur.“

Ljósmynd/Hrund Benediktsdóttir

Engin hætta á ferðum

Benedikt andar með nefinu þegar hann er spurður hvort einhver hætta hafi verið á ferðum, svo hafi hreinlega ekki verið. Hann viðurkennir þó að það hafi stíflast óvenjufljótt og óvenjumikið, áin fari upp á á hverju ári en þetta hafi nú verið „í meiri kantinum“.

Benedikt segir að flætt hafi að mestu yfir tún hans og annarra bæja í kring og það sé ekki góðs viti. Hann segir þó einnig að hvergi hafi mannvirki verið í hættu, hvorki á Hólmavaði né á öðrum bæjum í kring. Ef veður er áfram óhagstætt, frost og stíf norðanátt, er fullvíst að frjósi á túnunum.

„Ég var að verða vongóður um að sleppa með kal núna, ég var með svo ægilegt kal í fyrra. Það voru flest tún hjá mér nánast auð.“

Ljósmynd/Hrund Benediktsdóttir

Fróðir menn segja að Laxá í Aðaldal hafi ekki flætt jafnhressilega síðan í leysingum vorið 1979. Þá var Benedikt bara púki og brá á leik á ánni.

„Það var alveg svakalegt, já. Þá var ég bara níu ára og ég man að ég batt bát við hornið á garðinum og lék mér á bát hérna á túninu. Og svo þegar var farið að sjatna aðeins í ánni þá lögðum við net hérna úti á túni.“

mbl.is