Innbrot lögreglu ólöglegt en gögnin mátti nota

Manninum voru dæmdar miskabætur vegna innbrots lögreglu í símann hans. …
Manninum voru dæmdar miskabætur vegna innbrots lögreglu í símann hans. Gögnin sem lögregla komst yfir höfðu verið lögð fram sem sönnunargögn þegar hann var ákærður fyrir að hóta að dreifa nektarmyndum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurnesjum braut gegn stjórnarskrárvörðum réttindum karlmanns um þrítugt með því að leggja hald á símann hans og fá tæknideild lögreglu til að aflæsa símanum án þess að hafa aflað sér dómsúrskurðar þess efnis. Héraðsdómur Reykjaness hefur komist að þessu.

Engu að síður hafði lögregla áður fengið að leggja fram gögnin, sem aflað var með ólögmætum hætti, í sakamáli gegn manninum.

Hótaði að dreifa nektarmyndum

Forsaga máls er sú að maðurinn var til rannsóknar vegna ásakana 17 ára stúlku um að hann hefði í hótunum um að dreifa nektarmyndum af henni. Maðurinn viðurkenndi við skýrslutöku að hafa í símanum myndir af stúlkunni sem hún hafði sent honum og eyddi hann þeim úr símanum í viðurvist lögreglu. 

Þegar lögregla óskaði eftir að hann afhenti þeim ólæstan símann neitaði hann hins vegar. Lögregla leitaði þá til tölvurannsóknardeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lét opna símann með krókaleiðum, án þess að hafa aflað til þess dómsúrskurðar. Í símanum fundust skilaboð þar sem maðurinn hafði meðal annars ítrekað hótað stúlkunni að birta nektarmyndirnar. Maðurinn krafðist þess fyrir dómi að lögreglu yrði meinað að leggja fram gögnin enda hefði þeirra verið aflað með ólöglegum hætti.

Landsréttur hafnaði kröfu hans á þeim forsendum að þau andmæli sem hann tefldi fram vegna öflunar sönnunargagna kæmu til úrlausnar við efnismeðferð málsins, en leiddu ekki til synjunar við framlagningu þeirra. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði haldlagningar símans hefðu verið uppfyllt og ljóst við handtökuna að upplýsingar og gögn í símanum gætu haft sönnunargildi. 

Maðurinn var fundinn sekur í janúar 2020, dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða stúlkunni 500.000 krónur.

Leitar nú réttar síns vegna símagagnanna

Maðurinn stefndi í kjölfarið íslenska ríkinu vegna innbrotsins í farsímann. Byggði hann mál sitt á því að lögregla hefði með framkomu sinni brotið gegn 71. grein stjórnarskrárinnar en þar segir að ekki megi framkvæma húsleit eða leita í munum fólks án dómsúrskurðar. Taldi hann tjón sitt augljóst enda hafi lögreglumenn komist yfir viðkvæmar myndir og persónuleg gögn hans með ólögmætum hætti.

Í málsvörn ríkisins var meðal annars bent á að þegar gögnin voru lögð fram í málinu gegn manninum þá hefði aðgerð lögreglu við öflun þeirra ekki dregið úr sönnunargildi þeirra. Þá sagði ríkið að ekkert benti til annars en að lögregla hefði fengið dómsúrskurð fyrir að opna símann, ef þess hefði verið leitað.

Ríkið tapaði málinu. Í niðurstöðum dómsins segir að óumdeilt sé að háttsemi lögreglu hafi verið saknæm. Slíkt ólögmæti hefur áður verið staðfest í dómi Hæstaréttar. Var ríkið því dæmt til að greiða manninum 250.000 krónur í miskabætur með vöxtum, auk þess að greiða honum 519.000 krónur í málskostnað.

Dómur héraðsdóms

mbl.is