Ískalt gluggaveður á Reykjanesi

Samfelld hraunbreiða er á milli gosstaðanna þriggja sem í raun …
Samfelld hraunbreiða er á milli gosstaðanna þriggja sem í raun tilheyra einni og sömu gossprungunni yfir kvikuganginum við Fagradalsfjall. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afar fáir eru á gosstöðvunum enda ömurlegt veður og ískalt þar. Hjálm­ar Hall­gríms­son, vett­vangs­stjóri hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um, segir að svæðið hafi verið opnað klukkan sex en allt frá opnun hafi afar fáir verið þar. Á ellefta tímanum voru þar 19 bílar en aðeins sex um  níuleytið. 

„Það er gluggaveður. Það er sól hér í Grindavík en norðan 13 metrar á sekúndu og mjög kalt,“ segir Hjálmar. Hann vill benda fólki á að gossvæðið sé orðið mjög stórt og þegar svo hvasst er sé mjög erfitt að forðast reyk og gas.

Hann segir reynt að upplýsa fólk um að þetta þegar það kemur á staðinn. Að það geti verið hættulegt og að fólk sé þar á eigin ábyrgð. „Þið vitið af því og að þetta er hættulegur staður,“ segir Hjálmar sem ráðleggur engum að koma á gossvæðið í dag. 

Spáin er eftirfarandi:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast síðdegis. Líkur á að gasmengun finnist í einhverju magni í Grindavík.

Norðan og norðvestan 8-13 fram eftir degi á morgun en hæg vestlæg eða norðvestlæg átt síðdegis og annað kvöld með dálítilli snjókomu eða slyddu. Nægilega hægur vindur svo uppsöfnun gass geti orðið hættuleg nærri gosstöðvum en þó líklega ekki í Grindavík í norðvestlægum áttum.

mbl.is