Laus hross á brokki

mbl.is/Eggert

Lögreglunni barst tilkynning um laus hross á brokki í Árbænum í gærkvöldi og tóku starfsmenn Reykjavíkurborgar við málinu af lögreglu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir tímabilið frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. 

Málin sem lögreglan sinnti voru af ýmsum toga, þar á meðal snjóboltakast sem endaði með brotinni rúðu á heimili. Málið telst að fullu upplýst en annað gildir um rúðu sem var brotin í bifreið skammt frá skóla um kvöldmatarleytið. Ekki náðist í eiganda bifreiðar né er vitað hver braut rúðuna.

Eitt heimilisofbeldismál kom til kasta lögreglunnar á stöð 1, það er lögreglustöðin sem er með Seltjarnarnes, Vesturbæ, miðborgina og Austurbæinn. Þar var einnig tilkynnt um konu í annarlegu ástandi með innkaupakerru fulla af verkfærum. Eftirgrennslan bar ekki árangur né var hringt aftur vegna konunnar.

Óskað eftir aðstoð lögreglu á stöð 3 sem annast Kópavog og Breiðholt við að vísa manni út úr verslun þar sem hann var ekki velkominn vegna ítrekaðra þjófnaða. Það var gert samkvæmt færslu í dagbók lögreglunnar.

Um klukkan 18 kom lögregla að umferðarslysi en meiðsli reyndust minni háttar. Ökutæki fjarlægð með dráttarbifreið.

Á áttunda tímanum var óskað eftir aðstoð lögreglu á Landspítalann. Aðili þar var til vandræða. Lögregla fjarlægði viðkomandi og kom honum í viðeigandi úrræði.

Lögreglan handtók mann eftir húsbrot í miðborginni í nótt og var hann með mögulegt þýfi á sér. Maðurinn er vistaður í fangageymslu.  

Síðar barst tilkynning um ungmenni sem voru til vandræða við tvo veitingastaði í Mosfellsbæ með stuttu millibili. Afskipti lögreglu leiddu ekki til aðgerða.

Nokkrir ökumenn voru síðan stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna auk fleiri brota. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert