Sjaldséðan hval rak á land í Eyjafirði

Norðsnjáldrar eru ekki vanir að koma nálægt landi.
Norðsnjáldrar eru ekki vanir að koma nálægt landi. Ljósmynd/Stefani Lohman

Norðsnjáldri af ætt svínhvala fannst rekinn dauður skammt sunnan við Grenivík í síðustu viku. Kristinn Ásmundsson, bóndi á Höfða II, tilkynnti um hvalrekann.  Í tilkynningu frá Náttúruminjasafni Íslands segir að hvalrekinn sé merkilegur yfir þær sakir að aðeins er vitað um átta önnur tilvik hér við land frá því að Hafrannsóknastofnun hóf að skrá hvalreka við Íslandsstrendur.

Norðsnjáldrinn í Eyjafirði var að öllum líkindum fullorðinn tarfur, 4,73 metrar að lengd. Norðsnjáldrar verða stærstir um 5-5,5 metra langir og allt að 1,5 tonn að þyngd. Almennt er lítið vitað um norðsnjáldra en þeir lifa aðallega á brjóskfiski og halda sig yfirleitt langt úti á sjó.

Norðsnjáldri skammt frá Grenivík.
Norðsnjáldri skammt frá Grenivík. Ljósmynd/Stefani Lohman

Sverrir Daníel Halldórsson, sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, fór á vettvang ásamt Hlyni Péturssyni, útibússtjóra stofnunarinnar á Akureyri, og mældu þeir hvalinn og tóku sýni til rannsókna. Dánarorsök er enn ókunn og ekkert fannst af matarleifum eða plasti í maga hvalsins, sem má teljast sjaldgæft nú á dögum.

Hvalshræið var urðað í fjöru þar sem það verður látið rotna. Síðan verður beinagrind hvalsins hirt og rannsökuð.

mbl.is