Skerpa þurfi á reglum um sóttkví í heimahúsi

Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Á meðal aðgerða sem hægt er að ráðast í til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar frá landamærunum er að skerpa á reglum um sóttkví í heimahúsi.

Til dæmis væri hægt að skýra betur hvað húsnæði þarf að uppfylla og hvaða skyldur fólk í sóttkví þarf að uppfylla. Hugsanlega þyrfti að setja þá í sóttvarnahús sem ekki geta uppfyllt þessar reglur.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi í morgun. Hann hefur þegar sent minnisblað til heilbrigðisráðherra vegna aðgerða á landamærunum.

Að sögn Þórólfs væri einnig hægt að auka eftirlit með fólki sem er í heimasóttkví á einhvern máta, skerpa á eftirliti á landamærum og fylgja betur eftir í hvernig húsnæði fólk ætlar að fara.

Þórólfur Guðnason í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrra.
Þórólfur Guðnason í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrra. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Nauðsynlegar út af breska afbrigðinu

Aðspurður sagði hann að þær takmarkanir sem eru í gangi innanlands séu nauðsynlegar vegna þeirrar hættu sem stafar af breska afbrigði veirunnar. Það hafi valdið fleiri innlögnum á spítala erlendis en önnur afbrigði. „Það er alls ekkert útséð um hvað gæti gerst ef við fengjum álíka útbreiðslu og í öðrum löndum,“ sagði hann og nefndi að koma þurfi í veg fyrir útbreiðsluna strax í upphafi. Annars verði það of seint.

mbl.is