Skíðamaður komst sjálfur úr snjóflóði

Frá Skálafelli.
Frá Skálafelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skíðamaður lenti í snjóflóði í Skálafelli á öðrum tímanum í dag en slapp óhultur.

Að sögn Magnúsar Árnasonar, framkvæmdastjóra skíðasvæðanna, náði skíðamaðurinn að komast sjálfur upp úr flóðinu, sem hann hafði komið sjálfur af stað. Starfsmenn á svæðinu komu honum til aðstoðar í lokin. 

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um að maður hefði lent í snjóflóði í brekkunum í Skálafelli um klukkan 13.40. Sjúkrabíll og sérútbúinn fjallasjúkrabíll voru sendir á vettvang, auk þess sem lögregla og björgunarsveitir voru kallaðar út.

Þegar fyrstu aðilar mættu á svæðið var ljóst að maðurinn hafði komist af sjálfsdáðum úr flóðinu. Betur fór því en á horfðist og voru viðbragðsaðilar afturkallaðir, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, var með öðru fólki á skíðum en hann var sá eini sem lenti í flóðinu. Ekki þurfti að flytja hann á slysadeild.

Uppfært kl. 15.17:

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að snjóflóðið hafi fallið ofan við skíðaskála KR í Skálafelli. Tveir voru þar á ferð.

Fljótlega náðist að hafa samband við þann sem var fastur í flóðinu og sagðist hann vera óslasaður.

„Lögreglan minnir fólk á að fara varlega þegar farið er til fjalla og að hafa meðferðis öryggisbúnað eins og snjóflóðaýlur,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert