Varar fólk við því að fara á gossvæðið

Frá gossvæðinu.
Frá gossvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skafrenningur er á gossvæðinu, fimm stiga frost og hvasst, auk þess sem hálka er á Suðurstrandarvegi. Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir aðstæðurnar slæmar og varar fólk við því að fara á svæðið.

„Það er hvasst, ábyggilega 13 til 14 metrar á sekúndu, ískalt úti og hálka á veginum. Þetta eru ekki góðar aðstæður,“ segir Hjálmar og bætir við að spáð sé betra veðri á morgun.

Fjórir bílar voru komnir á svæðið þegar opnaði klukkan 6 í morgun og því er mjög rólegt þar eins og er.

„Við höfðum til skynsemi fólks. Það veit nákvæmlega út í hvað það er að fara þegar það fer af stað. Það voru tveir göngumenn í morgun sem voru vel búnir og vissu alveg út í hvað þeir voru að fara,“ segir hann en björgunarsveitarmenn og löggæslumenn fylgjast með gangi mála á gossvæðinu.

Rýma þurfti svæðið í gærkvöldi vegna gasmengunar. Að sögn Hjálmars gekk það ljómandi vel og virtist fólk hafa skilning á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert