3.500 laus störf

mbl.is/​Hari

Áætlað er að 3.500 störf hafi verið laus á fyrsta ársfjórðungi 2021 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 175.700 störf mönnuð á íslenskum vinnumarkaði og hlutfall lausra starfa því 1,9%.

Almennt atvinnuleysi var 11,4% í febrúar og minnkaði úr 11,6% í janúar. Atvinnuleysið var 10,7% í desember, 10,6% í nóvember og 9,9% í október. Ekki hafa verið birtar tölur á vef Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í mars en stofnunin spáði því að það yrði á bilinu 10,9% til 11,3%.

Samanburður við 2020 sýnir að 700 fleiri störf voru laus á fyrsta ársfjórðungi 2021 en á sama tímabili 2020. Mönnuðum störfum fækkaði um 29.800 á milli ára og hlutfall lausra starfa hækkaði um 0,6 prósentustig.

Borið saman við fjórða ársfjórðung 2020 fjölgaði lausum störfum um 700 en fjöldi mannaðra starfa dróst saman um 28.200. Hlutfall lausra starfa hækkaði um 0,6 prósentustig á milli ársfjórðunga.

mbl.is