Í Þýskalandi til stuðnings syni sínum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er stödd í Þýskalandi þar sem hún hefur verið syni sínum, handboltamanninum Gísla Kristjánssyni, til halds og trausts eftir að hann meiddist illa á öxl.

„Drengurinn minn slasaðist og fór úr lið og þá fór ég út til hans. Hann býr einn og gat ekki sinnt sér sjálfur,“ segir Þorgerður Katrín, sem hefur einnig farið með honum í viðtöl til lækna. „Hann er einhentur og þarf stuðning.“

Vel heppnuð aðgerð 

Gísli gekkst undir aðgerð í fyrradag en henni hafði verið seinkað vegna Covid-19. „Ég er í þannig fjölskyldu sem hugsar um börnin sín og styð við þau þegar þau þurfa á því að halda,“ segir hún. „Ég hefði ekki verið að fara nema af því að hann slasaðist illa og þetta er í þriðja sinn,“ bætir hún við og á þar við þrálát axlarmeiðslin.

Þorgerður segir að aðgerðin hafi heppnast mjög vel og að þau mæðginin fari heim til Íslands um leið og Gísli fær leyfi til þess að ferðast. Hér heima verður Gísli í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfurum. Fyrst verða þau samt í sóttkví, eins og vera ber, í sveitinni í Ölfusi.

Umræða hefur verið uppi um Spánarferð Brynjars Níelssonar í ljósi tilmæla sóttvarnalæknis um að fólk ferðist ekki til útlanda að nauðsynjalausu.

Hvað vill Þorgerður segja við fólk sem veltir fyrir sér ferðalagi hennar í ljósi þessara tilmæla?

„Ég treysti fólki og ég veit að það er enginn að leika sér að því að ferðast núna. Ég held að fólk verði aðeins að fara að anda djúpt. Við munum ekki halda þetta út ef það verður endalaus gremja yfir öllu. Við þurfum að treysta fólki til þess að gera þetta. 99% af fólkinu standa sig vel,“ svarar Þorgerður og hvetur fólk til að líta á björtu hliðarnar, enda sé þetta allt að koma. Ástandið heima sé gott hvað varðar útbreiðslu kórónuveirunnar og betra en víða annars staðar.

Hún segir að fara þurfi að lögum og sjálf geri hún þær kröfur til ríkisstjórnarinnar. „Mér finnst þessar nýju sóttvarnareglur sem hún er að setja meira í ætt við meðalhóf og skynsemi en það sem heilbrigðisráðherra lagði upp með um daginn,“ greinir þingmaðurinn frá.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gagnrýnd fyrir golfiðkun í fyrra 

Þorgerður Katrín var gagnrýnd í fyrra fyrir að hafa spilað golf á golfvellinum í Hveragerði þrátt fyrir tilmæli Golfsambands Íslands um að kylfingar á höfuðborgarsvæðinu leituðu ekki til golfvalla utan þess til að fara í golf. Hún svaraði gagnrýninni þannig að þetta hefði verið óafsakanlegt af sér en benti á að hún hefði ekki komið beint að sunnan til golfiðkunar heldur hafi hún þegar verið úti á landi í húsi sínu í Ölfusi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert