Slíkar hugsanir myndu ekki koma upp í dag

Frá gjörgæsludeild Landspítala. Þar þurftu mest 12-13 manns að dvelja …
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Þar þurftu mest 12-13 manns að dvelja á sama tíma í öndunarvél. Ljósmynd/Landspítali

Kórónuveirufaraldurinn kallar líklega á nýja hugsun í framtíðinni hvað varðar birgðir af sumum búnaði innan heilbrigðiskerfisins. Fyrir faraldurinn höfðu komið upp vangaveltur um að minnka sóttvarnalager sóttvarnalæknis, m.a. vegna kostnaðar við hann. Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítala, segir að eftir reynsluna af kórónuveirufaraldrinum myndu slíkar hugmyndir aldrei koma upp.

Bæði fyrirtæki og einstaklingar gáfu Landspítala rausnarlegar gjafir í byrjun faraldurs fyrir um ári, alls á fjórða tug öndunarvéla og annars búnaðar. Sem betur fer hefur spítalinn ekki neyðst til að nota margar vélanna. Þær eru nú í geymslu og þyrfti að yfirfara þær ef þær færu í notkun.

Jón Hilmar segir að á þeim tíma sem Landspítali fékk vélarnar hafi starfsfólk spítalans ekki vitað við hverju það ætti að búast en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir því að allt að 50 til 60 manns þyrftu að vera í öndunarvélum samtímis vegna Covid-19. Spítalinn átti ekki svo margar vélar og tók því fagnandi á móti öndunarvélunum. Þeim verður ekki ráðstafað sem stendur, á meðan óvissa um framhaldið er enn til staðar.

Starfsfólk Landspítala og fleiri framlínustarfsmenn hafa þurft að klæðast hlífðarfatnaði …
Starfsfólk Landspítala og fleiri framlínustarfsmenn hafa þurft að klæðast hlífðarfatnaði við störf vegna Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áttu mikinn búnað á sóttvarnalager

Evrópa þurfti að stórum hluta að treysta á Kína hvað varðar sóttvarnabúnað í faraldrinum þar sem mest framleiðsla á slíkum búnaði fer fram þar.

„Við treystum á flóknar birgðakeðjur í heiminum í dag, m.a. með matvæli og alls konar framleiðslu. Kórónuveirufaraldurinn kallar líklega á einhverja endurhugsun á þessum hlutum, a.m.k. að sumu sem snýr að heilbrigðiskerfinu og rekstraröryggi þess í krísum,“ segir Jón Hilmar um það.

„Við Íslendingar vorum heppnir og höfðum sýnt fyrirhyggju því við áttum mikið af hlífðarbúnaði á sóttvarnalager. Mörg lönd voru í annarri stöðu og lentu í tímabundnum skorti á hlífðarbúnaði sem auðvitað var ekki gott mál. Fólk treystir á þessi kerfi í heiminum, treystir á að ef þig vantar eitthvað getirðu fengið það. Það breyttist svolítið því þó að það sé komið jafnvægi núna þá mun þetta leiða til endurskoðunar á neyðarbirgðum hjá okkur eins og annars staðar í heiminum.“

Þá segir Jón Hilmar að umræður um þessi mál séu og verði allt öðruvísi eftir reynsluna af kórónuveirufaraldrinum.

„Við munum líta á nauðsynina á að eiga neyðarbirgðir af mikilvægri rekstrarvöru og tækjum með allt öðrum augum en fyrir faraldurinn,“ segir Jón Hilmar.

mbl.is