Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda sérstök

Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs.
Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs. Ljósmynd/Aðsend

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, segir skiljanlegt að það þurfi að vera inngrip í líf og heilsu fólks vegna Covid og bætir við að ekki sé verið að mæla neitt á móti því. 

„En hins vegar eru þetta ákveðin grundvallarprinsipp sem þarf að hafa í huga,“ segir Berglind í samtali við mbl.is og bætir við: „Varðandi öryggi almennings þá er það best tryggt í þeim lýðræðisríkjum þar sem reglur réttarríkisins eru hafðar í heiðri.“

Berglind segir úrskurðina, sem kveðnir voru upp í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vikunni, skýra. „Þessi reglugerð um skyldu, hana skortir lagastoð og ákvarðanir sóttvarnayfirvalda gengu lengra heldur en heimilt var samkvæmt lögum.“

„Okkur finnst viðbrögð heilbrigðisyfirvalda og aðila innan heilbrigðiskerfisins við niðurstöðu dómstólsins um margt mjög sérstök og það verður bara að segjast eins og er að umræðan sem hefur orðið, hún er þessum aðilum ekki til framdráttar,“ segir Berglind.

Berglind segir sérfræðinga á sviðum heilbrigðis og heilbrigðisvísinda vera sérfræðinga á sínum sviðum og bætir við: „Við virðum það og eiga þeir þá ekki alveg eins að virða okkar sérfræðiálit á lögum og reglum?“

Mannréttindi, lýðræði og réttarríki „ekki léttvæg hugtök“

„Þessi viðbrögð undirstrika enn frekar þá nauðsyn sem er á hlutverki lögmanna og dómstóla sem eru þau að standa vörð um réttarríkið. Mannréttindi, lýðræði og réttarríki, þetta eru ekki innantóm hugtök, þetta eru ekki léttvæg hugtök. Þau skipta máli og þau skipta aldrei eins miklu máli og þegar einhver ógn steðjar að okkur,“ segir Berglind og bætir við:

„Þetta er ekki andstæða við vernd og öryggi almennings. Þetta er trygging fyrir því að almenningur njóti þessarar verndar og þess öryggis sem þetta regluverk er ætlað að veita okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert