Miðað við 55 ára

18 dauðsföll hafa verið tengd bóluefni AstraZeneca, þ.e. u.þ.b. eitt …
18 dauðsföll hafa verið tengd bóluefni AstraZeneca, þ.e. u.þ.b. eitt á hverja 1.400.000 bólusetta einstaklinga. Aukaverkunin er talin vera raunveruleg en hún er flokkuð sem afar sjaldgæf. AFP

Konum yngri en 55 ára verður boðið annað bóluefni en AstraZeneca þegar þær verða bólusettar hér á landi.

AstraZeneca nær aðeins að afhenda helming þess bóluefnis sem til stóð að afhenda í vikunni til ríkja ESB, Íslands og Noregs. Þetta kemur fram í frétt AFP-fréttastofunnar í gær. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur að fengnu áliti sérfræðinga í blóðstorkuvandamálum, ákveðið að konur undir 55 ára (vegna aukinnar grunnáhættu yngri kvenna á blóðtappamyndun í heilaæðum umfram karla) fái annað bóluefni en AstraZeneca þegar þær láta bólusetja sig við Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef embættis landlæknis frá því í gær. 

Sóttvarnalæknir leitaði eftir áliti sérfræðinga á Landspítalanum varðandi hópa sem frekar ætti að bólusetja með mRNA-bóluefnum (t.d. Moderna) en með Vaxzevria (AstraZeneca) ef kostur er.

Einstaklingum í eftirfarandi hópum verður boðið annað bóluefni:

  • Konur undir 55 ára (vegna aukinnar grunnáhættu yngri kvenna á blóðtappamyndun í heilaæðum umfram karla)
  • Einstaklingar með fyrri sögu um blóðtappa í bláæðum án þekktra áhættuþátta (sjálfsprottna bláæðasega), hvort sem þeir eru á blóðþynnandi lyfjum eða ekki
  • Einstaklingar með undirliggjandi mikið aukna hættu á bláæðasegum s.s. sjúklingar

1. með beinmergsfrumuaukningu (e. myeloproliferative syndrome):

      • langvinnt mergfrumuhvítblæði (e. chronic myeloid leukaemia; chronic neutrophilic leukaemia og myeloproliferative disease, unspecified; chronic eosinophilic leukaemia)
      • frumkomið rauðkornablæði (e. polycythaemia vera)
      • sjálfvakið blóðflagnablæði (e. essential thrombocythaemia)
      • frumkomin beinmergstrefjun (e. primary myelofibrosis) – þ.m.t. sjúklingar með JAK2 stökkbreytingar

2. með PNH (e. primary nocturnal haemoglobinuria; köstótt næturblóðrauðamiga)
3. með lupus anticoagulant/antiphospholipid syndrome, þ.e. sjúklingar með sjálfsmótefni sem auka hættu á bláæðasegum
4. á lenalidomid-meðferð við beinmergsmeinum

Einstaklingar sem þetta á við um verða merktir sérstaklega í bólusetningakerfinu og ættu að fá boð í mRNA-bólusetningu en ekki Vaxzevria þegar kemur að bólusetningu þeirra en stór hluti þessa hóps er í tíunda og um leið síðasta bólusetningarhópnum.

„Þeir sem þetta á við um sem hafa nú þegar afþakkað boð í bólusetningu eða ekki mætt eiga þá von á að fá nýtt boð eftir það og þá í mRNA-bóluefni. Ef einhver telur sig eftir það ranglega hafa fengið boð í Vaxzevria sem tilheyrir hópunum hér að ofan er rétt að hafa samband við heilsugæslu sem getur staðfest sjúkrasöguna og mega umsjónarmenn lista á því heilsugæslusvæði þá merkja viðkomandi til að hægt sé að boða aftur á réttum degi þegar viðeigandi bóluefni er í boði,“ segir í tilkynningu á vef embættis landlæknis.

Minnisblað frá sérfræðingum Landspítalans

Í minnisblaðinu er vísað í upplýsingar frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) frá því fyrr í vikunni en þar kom fram að tilkynnt hafi verið um 87 tilfelli óvenjulegra blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað (blóðflagnafæð). Á ensku nefnast þessi sjaldgæfu tilfelli cerebral sinus/vein thrombosis (CVT) og splanchic thrombosis (ST) og hafa þau komið upp hjá sjúklingum 4-16 dögum eftir að fengu bóluefni AstraZeneca (Vaxzevria).

87 tilfelli af 25 milljónum bólusetninga

Tilfellin eru eins og áður sagði afar fá því um er að ræða 87 tilfelli hjá þeim 25 milljónum einstaklinga sem fengið hafa þetta bóluefni, þ.e. tæplega 1 af hverjum 300.000 bólusettum og 18 dauðsföll hafa verið tengd þessari aukaverkun, þ.e. u.þ.b. 1 á hverja 1.400.000 bólusettra einstaklinga. Aukaverkunin er talin vera raunveruleg en hún er flokkuð sem afar sjaldgæf.

Í Bretlandi telja menn að hærri tíðni þessara áfalla hjá konum sé ekki raunveruleg heldur stafi af því að fleiri konur hafi fengið þessa tegund bóluefnis (þær eru meirihluti heilbrigðisstarfsfólks). „Það er hins vegar þekkt að í venjulegu árferði fá konur frekar bláæðasega í heilabláæðar en karlar,“ segir í minnisblaði sérfræðinga í blóðstorkuvandamálum til sóttvarnalæknis.

Ná að standa við afhendingar í ársfjórðungnum

Samkvæmt upplýsingum frá talsmanni AstraZeneca getur lyfjafyrirtækið aðeins afhent helming þess bóluefnis sem til stóð að afhenda í vikunni. Þetta breyti hins vegar ekki því að það muni ná að afhenda allt það bóluefni sem til stóð að afhenda á öðrum ársfjórðungi, það er fyrir lok júní.

AFP-fréttastofan vísar í frétt Financial Times þar sem fram kemur að í stað þess að afhenda 2,6 milljónir skammta til 27 ríkja ESB auk Íslands og Noregs í vikunni er aðeins hægt að afhenda 1,3 milljónir skammta. 

Vegna fregna af mögulegum sjaldgæfum aukaverkunum af bóluefni AstraZeneca hafa mörg ríki, líkt og Ísland, takmarkað notkun þess fyrir ákveðna aldurshópa. Í Bretlandi er það nú notað fyrir 30 ára og eldri og 65 ára og eldri í Svíþjóð svo fáein dæmi séu nefnd. 

Í gær greindu frönsk yfirvöld frá því að hálf milljón einstaklinga yngri en 55 ára hafi þegar fengið fyrri skammt bóluefnis AstraZeneca. Þessum hópi verður boðið að fá Pfizer-BioNTech eða Moderna í staðinn þegar fólk fær seinni bólusetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert