Útlit fyrir að allt fyllist og flutninga sé þörf

Sóttkvíarhótel við Þórunnartún.
Sóttkvíarhótel við Þórunnartún. mbl.is/Árni Sæberg

Sóttvarnahúsið í Þórunnartúni fylltist ekki í gærkvöld og nótt en von er á að það gerist í dag eða á morgun, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar forstöðumanns. Útlit er fyrir að sóttvarnahús verði að flytja starfsemi sína á fleiri staði en Þórunnartún. Eins og sakir standa er meirihluti þeirra sem dvelja í farsóttarhúsi af erlendu bergi brotinn, hvort sem fólkið er búsett á Íslandi eða ekki.

Gylfi segir að þrif á herbergjum séu það sem tefur mest fyrir, sérstaklega ef vitað er að kórónuveirusmitaðir hafi verið inni á herbergjunum.

„Það er langt komið með að fyllast, já,“ segir hann við mbl.is. „Við gerum ráð fyrir að það gerist í dag eða á morgun. Við þurfum að öllum líkindum að breiða eitthvað úr okkur á næstu dögum.“

Gylfi segir að ekki liggi fyrir hvar starfsemin muni breiða út úr sér en sú ákvörðun er á forræði Sjúkratrygginga Íslands sem útvegar Rauða krossi Íslands húsnæði.

„Ég veit að það er listi hjá SÍ yfir þá staði sem koma til greina, þá er valinn sá staður sem best hentar og er mest tilbúinn.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa Rauða kross Íslands.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa Rauða kross Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Engir sjálfboðaliðar

Gylfi segir að enn náist að manna þær stöður sem þarf að manna í sóttvarnahúsum. Til verkefnisins í Þórunnartúni eru ekki fengnir sjálfboðaliðar heldur aðeins starfsmenn Rauða krossins. Þriðji aðili er svo fenginn til að sótthreinsa þegar þarf og starfsfólk Fosshótels sér um almenn þrif á húsnæðinu. 

„Við erum bæði með um 70 starfsmenn Rauða krossins, sem eru að sinna þessu, en svo erum við líka með fyrirtæki sem sér um sótthreinsiþrif og svo sjá hótelstarfsmenn um almenn þrif.

Hins vegar er það bara þannig, eins og gefur að skilja, að þegar kannski 100 manns fara út í einu, hundrað herbergi, að þá tekur náttúrlega svolítinn tíma að þrífa það allt. Tala nú ekki um ef smit hefur komið upp í viðkomandi herbergi, þá þarf að sótthreinsa allt, ekki bara þrífa.

Þið eruð þannig ekkert að óska eftir sjálfboðaliðum sérstaklega, eða hvað?

„Ekki fyrir þetta verkefni ennþá allavega, en það er ekkert ólíklegt að af því verði.“

mbl.is