Benda raddveilur til myglu?

Mikið er talað í skólastofum og mygla getur fyrir vikið …
Mikið er talað í skólastofum og mygla getur fyrir vikið haft slæm áhrif á röddina. Myndin tengist efni greinarinnar ekki með beinum hætti. Eggert Jóhannesson

Allt bendir til þess að rakaskemmdir í skólahúsnæði geti haft slæmar afleiðingar á raddheilsu fólks. Dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, talmeina- og raddfræðingur, segir brýnt að sporna hratt og örugglega við þeirri þróun og gefa engan afslátt af úrbótum.

„Er þetta ekki bara gamla húsasóttin sem lítið var gert með á áttunda og níunda áratugnum? Rakaskemmdir geta leyst úr læðingi eitruð efni sem geta haft áhrif á heilsufar fólks og eitt af því fyrsta sem kemur fram er raddveilur. Þannig getur versnandi raddheilsa verið fyrsta merki um rakaskemmdir,“ segir dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, talmeina- og raddfræðingur, sem hefur vaxandi áhyggjur af áhrifum mygluskemmda í húsum á raddheilsu þjóðarinnar, ekki síst hjá nemendum og kennurum enda hefur mikið verið fjallað um mygluskemmdir í skólum að undanförnu.

Ekki er til ein ákveðin skilgreining á húsasótt, hún fer eftir því hvort vitnað er í læknisfræði eða verkfræði. Þó hafa menn sammælst um eftirfarandi skilgreiningu: Þegar íbúar húss (einn eða fleiri) hafa óæskileg líkamleg eða andleg einkenni/óþægindi sem tengja má dvöl í rými.

Talið er að um þriðjungur vinnuafls þjóðar framfleyti sér á því að leigja röddina út í atvinnuskyni. Í raun ætti því leigutaki að bera ábyrgð á velferð raddarinnar meðan hún er notuð í starfi, að dómi Valdísar. Raddveilur eins og langvarandi hæsi, ræma, raddbrestir, lítið raddþol, kökktilfinning í hálsi, raddþreyta við lestur, söng eða samræður hafa reynst vera algengar meðal þeirra sem nota röddina sem atvinnutæki. Ein stærsta ástæða fyrir raddveilum hefur fram til þessa fyrst og fremst verið rakin til almennrar vanþekkingar á líffærafræði raddar, raddheilsu og raddvernd.

Dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir.
Dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir.


Þekkingarleysið bagalegt

„Þetta þekkingarleysi er bagalegt,“ segir Valdís. „Ef þú sérð illa þá veistu um leið að eitthvað er að augunum og ef þú gengur haltur þá veistu að eitthvað amar að fætinum. Fólk áttar sig síður á röddinni enda þótt hæsi, hálsbólga, þurrkur, raddbrestir og sitthvað fleira sé skýr vísbending um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Þetta á jafnt við um leika sem lærða. Þeir sem eru að rannsaka áhrif myglu átta sig ekki alltaf á að samhengi er á milli þessara þátta, það er að segja myglu og raddveilna.“

Raddböndin liggja í öndunarveginum og fyrir vikið er þetta atvinnutæki svo margra í stöðugri hættu, bendir Valdís á. „Fari óværa í loftinu eins og mygla ofan í öndunarveginn er viðkvæmum þekjulögum raddbanda hætta búin, svo og slímbúskapnum öllum. Inniloft ertir slímhimnulög raddbandanna sem dregur úr teygjufærni þeirra og gerir það að verkum að tónmyndun verður ekki eðlileg, með öðrum orðum raddveilur skapast.“

Mygla í skólum er ekki séríslenskt fyrirbrigði en Valdís segir þetta vandamál þekkt víða um Evrópu enda séu skólabyggingar misjafnar að gæðum. Hún þekkir vel til í Finnlandi, þar sem hún tók doktorsprófið, og segir margar rannsóknir hafa verið gerðar þar og allt beri að sama brunni. „Það bendir allt til þess að mygluloft hafi slæm áhrif á raddgæði fólks. Þetta er bagalegt fyrir kennarana enda erum við að tala um fræðslutækið sem blessuð börnin okkar eiga að súpa sína þekkingu úr.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert