Bluetooth-tæknin væntanleg nær ári á eftir áætlun

Smitrakningarappið gerir núna ekki annað en að rekja ferðir þess …
Smitrakningarappið gerir núna ekki annað en að rekja ferðir þess sem er með það, án þess að halda utan um hverja hann hittir. Það breytist innan tíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppfærsla á smitrakningarappi almannavarna, sem nýta mun Bluetooth-tækni í stað GPS-hnita er enn óútgefin. Nær ár er liðið síðan fyrst var rætt um að nýta þessa tækni og stóð þó til að nýja appið yrði komið í notkun í maí eða júní, þ.e. árið 2020.

Sennilega styttist þó í útgáfu, en RÚV greinir frá því í dag að forritið sé tilbúið og til skoðunar hjá Persónuvernd.

Hið nýja app byggir á sameiginlegu verkefni frá Apple og Google, sem kynnt var í fyrra. Með hjálp Bluetooth geta símar í gegnum smáforrit opinberra heilbrigðisstofnana, skipst á upplýsingum um aðra síma sem eru í námunda við þá, að því gefnu að þeir hafi einnig sótt appið.

Ef einhver eigandi síma greinist smitaður getur hann látið heilbrigðisyfirvöldum í té upplýsingar um þá síma. Þetta gefur mun nákvæmari upplýsingar en núverandi app, sem notast við GPS-hnit, eins og Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri hjá almannavörnum, útskýrði í samtali við mbl.is 17. apríl 2020.

Þessi tækni hefur þegar verið tekin í notkun í mörgum löndum, til að mynda í Danmörku þar sem það var tekið í gagnið í júní í fyrra.

Í samtali við RÚV í dag segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, að útgáfa appsins hafi tafist vegna þess að ákveðið hafi verið að verja lengri tíma í öryggisúttekt. Persónuvernd fékk nýja appið til skoðunar 19. mars.

Smitrakningarforrit danskra heilbrigðisyfirvalda, Smittestop, nýtir þessa tækni.
Smitrakningarforrit danskra heilbrigðisyfirvalda, Smittestop, nýtir þessa tækni. Skjáskot/agunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert