Dregur til baka umsókn um starf umboðsmanns

Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari.
Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari. Ljósmynd/Saga Sig

Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, hefur dregið til baka umsókn sína um starf umboðsmanns Alþingis. Frá þessu greinir hún í færslu á Facebook.

Áslaug var ein fjögurra sem sóttu um embættið, en Tryggvi Gunnarsson, sem gegnt hefur starfinu í 22 ár, lætur af störfum um næstu mánaðamót.

Þrír aðrir sóttu um stöðuna, Ástráður Har­alds­son, dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur, Kjart­an Bjarni Björg­vins­son, dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur og sett­ur umboðsmaður, og Skúli Magnús­son, dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur.

Hennar hæfni og bakgrunnur áttu ekki upp á pallborðið

Í færslunni segir Áslaug að þegar gagnabeiðni barst frá ráðgjafarnefnd forsætisnefndar, sem sér um ráðningarferlið, hafi hún séð að ekki væri verið að leita að manneskju með hennar bakgrunn og hæfni. „Í beiðninni var óskað eftir við okkur sem gefið höfðum kost á okkur í starfið að senda úrlausnir eða álit sem við höfðum samið á sl. þremur árum og við teldum falla undir hlutverk og starfssvið umboðsmanns Alþingis,“ skrifar Áslaug.

Dómar frá starfstíma hennar sem héraðsdómari, stjórnsýslukærur og erindi til umboðsmanns Alþingis sem hún hafi unnið fyrir skjólstæðinga sína sem lögmaður féllu utan þess ramma sem óskað var eftir. Hún hafi því ákveðið að draga umsóknina til baka.

„Þetta ferli og í því sambandi samantekt á störfum mínum, fræðaskrifum, viðtölum o.fl. á liðnum árum varð hins vegar grunnur að nýrri heimasíðu fyrir lögmannsstofu mína. Þannig að eitthvað gott kemur úr þessu,“ skrifar Áslaug en hún rekur lögmannsstofuna Lögman.

Fjögur gáfu kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis. Skúli …
Fjögur gáfu kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis. Skúli Magnússon, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður, Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur og settur umboðsmaður og Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Samsett mynd
mbl.is