Elskar japönsku og hárkollur

„Ég fer eiginlega í karakter eftir því hvaða hárkollu ég …
„Ég fer eiginlega í karakter eftir því hvaða hárkollu ég er með. Svo er ég bara mjög venjuleg þegar ég er ekki með neina hárkollu,“ segir Bogga sem á tíu hárkollur sem hún notar við mismunandi tækifæri. mbl.is/Ásdís

Tveir litlir krúttlegir pylsuhundar gægjast forvitnir á blaðamann þegar Borghildur Gunnarsdóttir opnar dyrnar. Yfir kaffibolla segir Bogga, eins og hún er kölluð, blaðamanni frá óvenjulegum áhugamálum sínum, japönsku og hárkollum!

„Ég er á fyrsta ári í iðnaðarverkfræði og þriðja ári í japönsku í Háskóla Íslands. Ég átti að fara í skiptinám til Japans en svo kom Covid og þá fór ég í iðnaðarverkfræði í staðinn,“ segir hin 23 ára Bogga.

Talar japönsku við hundana

Bogga segir áhugann á japönsku hafa kviknað strax í grunnskóla.
„Ég er einkabarn þannig að ég eyddi miklum tíma ein. Einhvern tímann fann ég anime-þætti talsetta á ensku en seinasta serían var á japönsku,“ segir Bogga og útskýrir að anime séu japanskar teiknimyndir.

„Ég horfði á seríuna á japönsku og varð strax ástfangin af tungumálinu. Ég byrjaði að kenna sjálfri mér japönsku í níunda bekk og svo fór ég í MH af því þar er japanska kennd. Ég er fyrsti nemandinn, svo ég viti, sem útskrifast með japönsku sem þriðja tungumál,“ segir Bogga sem dreif sig svo í japönsku í HÍ.

„Við erum þó nokkur í japönsku þarna,“ segir Bogga og segist alveg skilja tungumálið og geta haldið uppi samræðum.

„Ég hef einu sinni komið til Japans. Ég fór með pabba mínum fyrir tveimur árum og var í tíu daga. Ég talaði þar japönsku og pabbi gat ekki verið án mín því ég talaði japönsku við alla leigubílstjóranna. Hann týndist bara ef hann þurfti að fara eitthvað einn,“ segir hún og hlær.
„Þegar ég talaði japönsku í búðum var ég gjarnan spurð: „Af hverju kanntu japönsku?““ 

Ljóslillablá hárkolla keypt

Hárkollur eru einnig stórt áhugamál hjá Boggu og á það einnig uppruna sinn í anime-teiknimyndum.

Bogga skoðar sig í spegli og lagar til hárið á …
Bogga skoðar sig í spegli og lagar til hárið á fyrstu hárkollunni sem hún keypti. mbl.is/Ásdís

„Í þessum teiknimyndum eru persónur með mjög litríka hárliti. Þegar ég var í menntaskóla byrjaði ég að lita á mér hárið mjög mikið og vildi vera með alls konar litað hár. Síðan sá ég eitt sinn stelpu á Youtube sem var að setja á sig hárkollu og hugsaði, þetta er hægt! Ég sökkti mér ofan í þessi myndbönd og fannst þetta geggjað. Það var einmitt einn háralitur sem ég gat aldrei litað hárið mitt með af því ég er svo dökkhærð; ljóslillablár. Ég uppgötvaði þarna að ég gæti bara keypt mér þannig hárkollu. Ég fann hana á netinu og keypti og er hún ein af uppáhaldshárkollunum mínum. Hún er búin að ganga í gegnum margt,“ segir Bogga og segist oft nota hana þegar hún hitti vini eða fari út að skemmta sér. 

Bogga kaupir vandaðar hárkollur sem líta náttúrulega út en eftir að hafa keypt fyrstu kolluna var ekki aftur snúið.

„Þá þurfti ég að kaupa aðra og svo aðra. Þetta er ekki ódýrt áhugamál,“ segir hún en segist þó ekki kaupa hárkollur úr mannahári því þær séu allt of dýrar.

Hárkolla í þrjátíu stigum

Hvað notar þú oft hárkollu?

„Fyrir Covid notaði ég hárkollu allar helgar og oft þegar ég fór í skólann. Ef ég vaknaði með hræðilegt hár gat ég bara skellt á mig hárkollu,“ segir hún og brosir.

„Eina notaði ég mikið í vinnunni af því hún er stutt,“ segir Bogga og viðurkennir að það geti verið ansi heitt að vera með kollu.

„Mér þykir vænt um þær. Ég veit ekki hver er …
„Mér þykir vænt um þær. Ég veit ekki hver er í uppáhaldi; þetta er eins og að gera upp á milli barna sinna. Ég nota svörtu mest því hún passar við flest.“ mbl.is/Ásdís

„Það venst. Eftir tuttugusta sinn hættir þú að taka eftir því. Einu sinni var ég með hárkollu í Austurríki í þrjátíu stiga hita, og hatt yfir. Eftir það er allt annað ekkert mál,“ segir Bogga og segir nú ekki nógu mörg tilefni til að nota hárkollur vegna faraldursins. Þó setur hún upp hárkollu þegar hún fer í vinnuna.

„Ég er að vinna í Líflandi, hestabúð, og körlunum þar finnst þetta mjög fyndið þegar ég er með blátt hár,“ segir Bogga og segir hesta einmitt þriðja áhugamálið.

Finnst foreldrum þínum þetta hárkolluáhugamál ekkert skrítið?

„Jú, en ég held að pabbi sé bara ánægður með að ég sé hætt að lita á mér hárið. Stundum mætti ég til hans með eldrautt hár og hann dæsti bara.“

Hemur sig í kaupunum

Í safni Boggu má finna tíu hárkollur og hún er hvergi nærri hætt.

„Ég ætla ekki að kaupa aftur fyrr en í sumar,“ segir Bogga og segist reyna að hemja sig í innkaupum. 

Bogga nær í allar hárkollurnar og raðar þeim varlega á eldhúsborðið. Hún fer um þær mjúkum höndum og sýnir blaðamanni en þarna eru hárkollur í öllum regnbogans litum. Hún handleikur eina tvílita; svarta og brúna með topp.

Tvílitt hár er í tísku í dag.
Tvílitt hár er í tísku í dag. mbl.is/Ásdís

„Þessi er svolítið inn í dag af því hún er tvílit,“ segir hún og tekur svo upp lillabláu hárkolluna, sem var sú fyrsta í safninu.

„Þessi er svakaleg! Ég þarf að slétta hana,“ segir hún og mátar eina rauða og hvíta, tvílita.

„Ég litaði þessa sjálf sem var svakalegt vesen. Hún er stoltið mitt. Ég litaði hana upphaflega fyrir búning en hef alveg notað hana úti á djamminu,“ segir hún og skellir á sig annarri með stutt hár.

„Ég hef fengið marga fría drykki út á þessa bláu,“ segir hún og greinilegt er að hárkollurnar vekja athygli.

Bláa aldrei með vesen

Bogga setur upp hárkollurnar eina af annarri. Útlit hennar gjörbreytist eftir því hvaða kolla er sett upp. Sumar eru rómantískar, aðrar töff og enn aðrar brjálaðar.

Bláa stutta er aldrei með neitt vesen að sögn Boggu …
Bláa stutta er aldrei með neitt vesen að sögn Boggu sem notar hana gjarnan í vinnunni. mbl.is/Ásdís

„Stjúpmamma mín segir að ég sé með mörg andlit,“ segir Bogga og segist gjarnan klæða sig í stíl við kollurnar.

„Ég nota hárið rosalega mikið til að tjá mig. Ef ég er í stuði nota ég ljósa hárkollu en ef ég vil vera alvarleg nota ég aðeins náttúrulegri. Ef ég vil skemmta mér rosalega vel nota ég þessar styttri. Ég fer eiginlega í karakter eftir því hvaða hárkollu ég er með. Svo er ég bara mjög venjuleg þegar ég er ekki með neina hárkollu,“ segir hún og hlær.

Það er smá Marilyn Monroe-stæll á þessari bleiku og skvísulegu …
Það er smá Marilyn Monroe-stæll á þessari bleiku og skvísulegu hárkollu. mbl.is/Ásdís

„Mér þykir vænt um þær. Ég veit ekki hver er í uppáhaldi; þetta er eins og að gera upp á milli barna sinna. Ég nota svörtu mest því hún passar við flest. En ég held að þessi stutta bláa sé uppáhalds; hún er aldrei með neitt vesen.“

Ítarlegt viðtal er við Boggu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert