Lægð vestur af landinu

Kort/Veðurstofa Íslands

Skammt vestur af landinu er 1.006 mb lægð, sem þokast suðsuðaustur og beinir mildum suðlægum vindum yfir landið.

„Rigning eða slydda í flestum landshlutum, jafnvel snjókoma til fjalla, en þurrt að kalla á Norðausturlandi. Lægðin fjarlægist suður í haf á morgun og fer þá að lægja og létta til en líklega áfram austankaldi með lítils háttar vætu syðst á landinu.

Á þriðjudag myndast ný smálægð á Grænlandssundi og snýst vindur þá í suðvestanátt, en úrkoma verður með minnsta móti og áfram fremur hlýtt ef að líkum lætur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Suðaustan og austan 5-13 m/s og rigning eða slydda með köflum, en úrkomulítið NA-lands. Dregur úr úrkomu síðdegis og gengur í norðaustan 10-15 NV-lands. Hlýnar í veðri og hiti 0 til 6 stig síðdegis.

Lægir smám saman á morgun og léttir til, en austan 8-13 og dálítil væta syðst. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast SV-lands.

Á mánudag:
Austlæg átt, 8-13 m/s og dálítil væta syðst, en annars 3-10 og yfirleitt léttskýjað. Hiti 1 til 9 stig, hlýjast SV-lands.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og dálitlar skúrir eða slydduél, en léttskýjað A-lands. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast á SA-landi.

Á miðvikudag:
Suðvestan 8-13 m/s, skýjað og þurrt að mestu, en léttskýjað NA-lands. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðra.

Á fimmtudag:
Stíf suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri, en úrkomulítið NA-lands.

Á föstudag:
Suðlæg átt og dálítil væta með köflum, en áfram milt í veðri.

Á laugardag:
Líklega áfram suðlægar áttir, víða talsverð rigning og fremur hlýtt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert