Leystu upp unglingapartí í Kjarnaskógi

Skemmdir hafa verið unnar á eignum Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarnaskógi …
Skemmdir hafa verið unnar á eignum Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarnaskógi að undanförnu. Af Facebook-síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga

Lögreglan á Akureyri leysti upp unglingapartí í Kjarnaskógi í nótt en talið er að á milli 50 og 60 unglingar hafi þar verið samankomnir. Borið hefur á slíkum partíum þar að undanförnu og skemmdir unnar á eignum Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Að sögn varðstjóra er þetta ekki í fyrsta skipti sem ungmenni á framhaldsskólaaldri eru staðin að því að safnast saman í Kjarnaskógi og því miður hafa verið unnar skemmdir þar. Bæði rúður brotnar og salerni eyðilögð. Eitthvað hefur verið um drykkju meðal ungmennanna en þau hafa verið fljót að forða sér þegar lögregla hefur komið á vettvang. 

Um brot á sóttvarnareglum er að ræða hvað varðar fjöldatakmarkanir og biður lögregla foreldra að ræða þetta við börn sín, ekki síst vegna þeirra skemmdarverka sem hafa verið unnin á eignum skógræktarinnar á þessu útivistarsvæði Akureyringa.

Líkt og lögreglan segir þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem unnin eru skemmdarverk í Kjarnaskógi því það gerðist einnig aðfaranótt laugardags samkvæmt færslu Skógræktarfélags Eyfirðinga á Facebook en þar er biðlað til foreldra og annarra að grípa inn.

„Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva þennan ófögnuð, öflugri myndavélavöktun, aðkoma lögreglu o.fl. mun snúa þessari þróun við en við þurfum engu að síður ykkar hjálp.
Yfirleitt gerist þetta að nóttu til. Stundum er um að ræða venjuleg mannalæti eða barnabrek, ölæði er ekki óþekkt en ítrekað hefur þó gerst að 3-4 hettuklæddir einstaklingar birtast, einn aðili sér um skemmdarverkið, hinir taka atburðinn upp á myndavélarsíma svo hægt sé að deila verknaðinum og þá er ekki óalgengt að stuttu síðar drífi að lið sem smellir af mynd og hraðar sér svo í burtu, fremur óhuggulegt.
Við látum þetta ekki líðast en við þurfum hjálp frá samfélaginu.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert