Lögreglan hljóp hraðar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlaði að hafa afskipti af ökumanni á þriðja tímanum í nótt sem greinilega vildi ekkert við hana tala því hann reyndi að komast undan á tveimur jafnfljótum en lögreglan hljóp hraðar og var maðurinn hlaupinn uppi. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna. Þetta er meðal verkefna sem lögreglan sinnti frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Skömmu fyrir kvöldmat var tilkynnt til lögreglu um mann sem var að ógna starfsmönnum og viðskiptavinum í verslun. Maðurinn hafði fyrr um daginn komið við sögu lögreglu vegna sams konar mála. Maðurinn var í mjög slæmu ástandi og gistir nú fangageymslur lögreglu.

Talsvert var um hávaðakvartanir og minni mál sem komu til kasta lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt. Líkt og venjulega voru nokkrir ökumenn stöðvaðir í umferðinni án þess að vera með ökuréttindi og aðrir voru undir áhrifum vímuefna við aksturinn.  

mbl.is