Steinunn Þóra sækist eftir öðru sætinu

Steinunn Þóra Árnadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Magnus Fröderberg/norden.org

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali flokksins í Reykjavík og sækist eftir öðru sæti á listanum hvort heldur sem það er í Reykjavík suður eða norður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steinunni Þóru. 

„Kjörtímabilið sem senn er á enda hefur verið viðburðaríkt og afkastamikið. Í fyrsta sinn í sögunni leiddi Vinstri hreyfingin – grænt framboð ríkisstjórn og má það teljast mikil gæfa fyrir þjóðina, ekki hvað síst í ljósi faraldursins sem óvænt skall á heimsbyggðinni. Það hefur verið sannur heiður að taka þátt í þeirri vinnu.

Ég tók sæti á Alþingi sem aðalmaður árið 2014 og hef alla tíð tekið að mér þau verkefni sem hreyfingin hefur falið mér. Þau hafa verið fjölbreytileg. Á þessum tíma hef ég setið í velferðarnefnd, utanríkismálanefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd, auk Norðurlandaráðs. Öll þessi verkefni hef ég reynt að nálgast út frá grunnstefnumálum hreyfingar okkar: jöfnuði, umhverfisvernd, kvenfrelsi og friðarstefnu.

Verkefnum okkar er hvergi nærri lokið og á komandi misserum verður þörf á okkar áherslum og sýn á hvernig samfélag við viljum. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í forvali Vinstri grænna nú í vor og sækist á ný eftir 2. sætinu í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna sem er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert