Auka aðgengi fyrirtækja að nemendum

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík

Iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík hefur skipað fagráð sem mun koma að þróun náms við deildina. Markmið þessa er að tryggja að námið svari þörfum atvinnulífsins og fyrirtæki fái til sín útskrifaða nemendur með þá þekkingu sem krafist er í starfsumhverfi nútímans, eins og segir í tilkynningu um málið.

„Sem dæmi má nefna að síðastliðið haust hófst kennsla á nýrri námsbraut hjá okkur, upplýsingatækni í mannvirkjagerð, þar sem verið var að bregðast við ákveðinni þörf eftir ítarlega þarfagreiningu á markaði. Sú námsbraut hefur gengið mjög vel og greinilegt að þar vorum við að mæta ákveðinni þörf fyrir sérhæfða þekkingu og hæfni.

Slíkt samtal við atvinnulífið er alltaf í gangi og í samvinnu við nýstofnuð fagráð erum við mjög opin fyrir því að stofna fleiri slíkar styttri námsbrautir,“ er haft eftir Heru Grímsdóttur, forseta iðn- og tæknifræðideildar, í fréttatilkynningu.

Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar.
Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík

Hún segir jafnframt að fagráðin muni gegna mikilvægu hlutverki í skipulagningu náms við deildina. Fyrirtæki hafi einnig hag af stofnun fagráðanna þar sem þau geti komið sínum áherslum á framfæri í gegnum þau.

Fagráð byggingasviðs skipa:

  • Magnea Huld Ingólfsdóttir, byggingarverkfræðingur á samgöngu- og umhverfissviði Verkís
  • Guðbjartur Jón Einarsson, byggingarverkfræðingur hjá Mannviti
  • Sigurður Hafsteinsson, byggingartæknifræðingur og eigandi Vektors – hönnunar og ráðgjafar

Fagráð rafmagnssviðs skipa:

  • Erla Björk Þorgeirsdóttir, rafmagnsverkfræðingur og framkvæmdastjóri Verkfræðistofunnar Afls og orku
  • Gunnar Ingi Valdimarsson, rafmagnstæknifræðingur og sérfræðingur á framkvæmda- og rekstrarsviði Landsnets
  • Ingvar Bjarnason, byggingafræðingur og verkefnastjóri hjá Nova
  • Ólafur Haukur Sverrisson, verkfræðingur hjá Össuri

Fagráð vél- og orkusviðs skipa:

  • Smári Guðfinnsson, vél- og orkutæknifræðingur hjá Verkfræðistofunni EFLU
  • Ásgrímur Sigurðsson, vél- og orkutæknifræðingur og framkvæmdastjóri viðhalds og áreiðanleika hjá Alcoa Fjarðaáli
  • Úlfar Karl Arnórsson, vél- og orkutæknifræðingur og Team Leader, Mechanical Design hjá Völku
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert