„Ekkert sem toppar þetta“

Flugvélin sem sást lenda í vefmyndavél mbl.is í morgun.
Flugvélin sem sást lenda í vefmyndavél mbl.is í morgun. Ljósmynd/Haukur Snorrason

„Við vorum í ljósmyndaflugi þarna yfir gosinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég lendi þarna,“ segir Arnar Þór Emilsson, flugmaðurinn sem flaug vélinni sem lenti við gosstöðvarnar í morgun.

Lendingin vakti athygli meðal árvökulla áhorfenda vefmyndavélar mbl.is. Arnar segir að þetta séu svipaðar slóðir og þyrlur lenda í útsýnisflugi yfir eldgosinu. Vélin sem Arnar flaug er sérútbúin. 

„Þetta er ekki hægt nema á réttri flugvél sem er sérstaklega útbúin fyrir svona utanflugvallalendingar. Hún flýgur sérstaklega hægt og er á stórum dekkjum og annað. Þetta krefst líka varkárni og að kynna sér aðstæður.“

Þá segir hann svona lendingu að sjálfsögðu ekki mögulega ef margt fólk er á svæðinu svo þeir hafi nýtt morguninn í þetta.

Mynd tekin úr flugvél af flugvél.
Mynd tekin úr flugvél af flugvél. Ljósmynd/Haukur Snorrason

Ógleymanleg upplifun

Haukur Snorrason ljósmyndari, sem var um borð í vélinni, segir ferðina ógleymanlega. 

„Ég er nú einkaflugmaður og hef flogið mikið sjálfur í gegnum tíðina en þessi var ógleymanleg. Því að lenda þarna er eins og að lenda á tunglinu. Upplifunin er mjög sterk; að stíga út úr flugvél og horfa á þetta. Líka í aðfluginu og lendingu og síðan í flugtaki að vera með þetta fyrir framan sig. Það er ekkert sem toppar þetta.“

Haukur og Arnar lentu við eldgosið í morgun.
Haukur og Arnar lentu við eldgosið í morgun. Ljósmynd/Haukur Snorrason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert