Fréttir af gosi spurðust hratt út

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Fréttir af því að eldgos væri hafið við Fagradalsfjall, í Geldingadölum, breiddust út eins og eldur í sinu ef marka má niðurstöður Þjóðarpúls Gallups um eldgosið.

Langflestir landsmenn fengu upplýsingar um að eldgos væri hafið sama kvöld og það hófst.

Gjósa tók klukkan 20:45 á föstudagskvöldi, 19. mars, um klukkustund síðar höfðu birst fréttir af því í flestum fréttamiðlum. Fyrir klukkan 23 höfðu nær 83% landsmanna frétt af gosinu og fyrir miðnætti höfðu rúmlega 85% landsmanna heyrt af því. 

Áður en nóttin var úti höfðu 91% landsmanna heyrt af gosinu og um hádegi daginn eftir voru 96% landsmanna búin að heyra af gosinu.

Orðið barst á milli manna

Flestir heyrðu af gosinu frá annarri manneskju eða um 38%, þá voru 24% sem heyrðu af gosinu í sjónvarpi og 16% í gegnum samfélagsmiðla. 15% heyrðu af gosinu af miðlum á netinu og rúmlega 5% í gegnum útvarp.

Flestir leita sér upplýsinga um eldgosið á netfréttamiðlum eða um 79% þeirra sem leita sér frétta af gosinu. Um 64% leita sér frétta í sjónvarpi og ríflega 43% á vef Veðurstofu Íslands. 

Samkvæmt niðurstöðu Þjóðarpúlsins höfðu 16% Íslendinga barið gosið augum vikuna 1.-7. apríl. Í sömu viku töldu 34% öruggt að fara að gosinu og ætla sér að fara að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert