Öskraði og grét úti á svölum

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst síðdegis í gær tilkynning um afbrigðilega hegðun manns á svölum íbúðar en hann bæði öskraði og grét. Í ljós kom að um var að ræða ölvaðan einstakling á svölum íbúðar sinnar og þarfnaðist ekki aðstoðar lögreglu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Tilkynnt var um blóðugan mann sem var blóðugur eftir líkamsárás á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Lögregla handtók árásarmanninn á vettvangi og er málið í rannsókn.

Síðdegis í gær voru tveir einstaklingar staðnir að þjófnaði í verslun á höfuðborgarsvæðinu og lögregla fengin á staðinn. Málið leyst með vettvangsskýrslu að því er segir í dagbók lögreglunnar. 

Stöðvuðu eftirlýstan mann 

Um áttaleytið í gærkvöldi stöðvaði lögreglan ökumann í akstri sem var grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Við vinnslu málsins kom í ljós að hann er eftirlýstur og gerði lögregla nauðsynlegar ráðstafanir. Eitthvað var um að lögregla sinnti fólki í annarlegu ástandi á vaktinni frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Bæði ökumönnum sem og öðrum íbúum höfuðborgarsvæðisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert